fbpx
Miðvikudagur 05.febrúar 2025
Fréttir

Miðbæjarbúar skiptast í fylkingar eftir viðtal Íslands í dag við Ólaf og Esther – „Komin út fyrir allan þjófabálk“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. febrúar 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðtal Íslands í dag við hjónin Ólaf Egil Egilsson og Esther Talíu Casey vakti mikla athygli í gær. Þar lýstu hjónin því hvernig bæði þau sem og gestir þeirra þurfa að borga 600 krónur á tímann fyrir bílastæði við hús þeirra á Grettisgötu. Gjaldskyldan er virk alla daga vikunnar frá því á morgnana og til níu á kvöldin. Þetta á einnig við um helgar. Til að bæta gráu ofan á svart mega bílar aðeins standa í þrjár klukkustundir í senn við Grettisgötuna. Eftir þann tíma þarf að fjarlægja bíla og eftir atvikum færa í annað gjaldsvæði nokkrum götum frá.

Líflegar umræður fóru af stað inni á hópi íbúa Miðborgarinnar á Facebook. Þar setti einn íbúi inn færslu þar sem hann lagði orð í belg. Hann benti á að í um 350 metra fjarlægð frá heimili Ólafs og Estherar er bílastæðahús. Eins þurfi gestir þeirra sem koma í kvöldverðarboð ekki að færa bíla eftir þrjár klukkustundir þar sem gjaldskyldan hættir klukkan 21. Loks benti hann á að bílastæði í Reykjavík þykja ódýr á alþjóðlegum mælikvarða. Ef allir íbúar væru á tveimur bílum væri hvergi nokkuð stæði að fá og þá myndu bílastæðagjöldin hækka enn frekar.

„Við sem búum í miðbænum eigum að fagna gjaldskyldunni miklu frekar en að bölva henni, njóta þeirra forréttinda sem það er að þurfa ekki að vera á nema einum, eða ekki neinum, bíl.
Hafandi sagt það þá er þetta eflaust yndislegt fólk og ætlunin ekki að henda neinum skít. Endilega höldum umræðunni á því level.

Hvað finnst ykkur? Mynduð þið vilja 2 bílastæðakort með þeirri aukningu sem það myndi þýða í fjölda bíla lögðum í bílastæðin í miðbænum?“

Skiptar skoðanir eru meðal íbúa. Sumir benda á að það séu bara vissir gallar við það að búa miðsvæðis í höfuðborginni. Þannig sé það úti um allan heim og íbúar geti í raun prísað sig sæla að bílastæðin séu þó ódýrari í Reykjavík en annars staðar. Aðrir benda á að það sé þreytandi að borgaryfirvöld séu að gera breytingar á miðborginni eftir einhverri hugmyndafræði um að íbúar miðborgar eigi að vera bíllausir. Þar með sé verið að segja íbúum hvernig þeir eigi að haga sínu lífi og auk þess gangi hugmyndafræðin ekki upp í framkvæmd þar sem almenningssamgöngur á Íslandi séu óskilvirkar og óáreiðanlegar.

Miðbær er miðbær

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, tekur undir með íbúanum og segir margar fjölskyldur nota 1-3 bifreiðar en gætu auðveldlega sleppt því. Sjálf hafa hún og maður hennar verið bíllaus í rúman áratug. Þau þurftu að venjast því til að byrja með en fara núna allra sinna ferða gangandi eða í strætó sem sé bæði hollt og skemmtilegt.

„Auðvitað eru aðstæður mismunandi hjá fólki en það er svo margt fólk sem kýs að nota tvo eða þrjá bíla (eða bara einn) sem gæti svo auðveldlega sleppt því. Við hjónin hættum að nota bíl 2011, þá bjuggum við í 104, unnum bæði í 101, áttum 11 ára grunnskólabarn í 105 og leikskólabarn í 107. Við ferðuðumst öll allra okkar ferða í strætó og gangandi og það var bara hollt og skemmtilegt.
Stress á köflum og kalt og leiðinlegt og þungir innkaupapokar en þetta venst helvíti hratt. Og þetta tal um mismunun er ekki alveg rökrétt. Það fylgja því kostir og gallar að búa í miðborg höfuðborgar. Einn af göllunum, ef þú og allir matargestirnir þínir eru á einkabílum og hafa ekki efni á bílastæðagjöldum eða geta ekki gengið 3-400 metra, er að kannski verða matarboðin færri eða það þarf stundum að fá aðstoð við hitt og þetta. Ef þú býrð í Jörfabakka eða Jónsgeisla er það kannski síður vandamál en þá máttu líka eiga von á að það taki 20 mínútur á bíl að komast á tónleika í Hörpu eða að það taki þig 40 mínútur að komast heim úr vinnunni á bíl úr Hörpu. Er það líka mismunun? Miðbær er miðbær. Flest fólk sækir þjónustu og vinnu hingað, hér er ferðamennskan, hér er hjarta menningarinnar – það er ekkert hægt að bera þetta saman við úthverfin.“

Hildur bætir við að bílastæðahúsin í miðbænum séu orðin þó nokkur en samt séu þau illa nýtt, mögulega því íbúar og gestir þeirra veigri sér við smá labbi. Hún telur að margir miðbæjarbúar séu sammála henni með það að ekki þurfi fleiri bílastæði. Það geti þó verið erfitt að taka þetta samtal þar sem aðdáendur einkabílsins eiga það til að rjúka upp í reiði.

Átti ekki að vera kvartfrétt

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason segir það vitleysu að líta svo á að hver íbúð eigi rétt á tveimur bílum. Sjálfur er hann með annan fótinn í Bostin í Bandaríkjunum sem telst ekki stór borg. Samt eru bílastæðagjöld þar mun hærri en í Reykjavík.

„Það er náttúrlega vitleysa að hver íbúi telji sig geta verið með tvo bíla. Ég er með annan fótinn í Boston í Bandaríkjunum sem er ekki stór borg. Bílastæðagjöld hér eru smáræði miðað við það sem þar tíðkast. Enda eru bílastæði ekki ókeypis gæði.“

Egill bætir við að þegar hann bjó sjálfur við Skólastræti átti hann tvo bíla en þá hvarflaði ekki að honum að biðja um meira en eitt íbúakort. Það verði fæstum meint af því að ganga smá vegalengdir en fólk í dag sé orðið sporlatt og auk þess sé ást Íslendinga á einkabílnum komin út fyrir velsæmismörk. „Bílavæðingin hérna er komin út fyrir allan þjófabálk.“

Esther Talía kvað sér hljóðs í athugasemdum. Hún benti á að allir séu í mismunandi aðstæðum og það hafi enginn rétt á því að skipa fólki hvernig það eigi að lifa sínu lífi. „Það sem hentar einum hentar bara alls ekki öðrum. Þetta átti engan veginn að vera einhver kvartfrétt enda við bara beðin um að segja okkar reynslu og pælingar um þetta í þættinum, verandi íbúar í miðbænum.“ Esther bendir á að strætó sé óútreiknanlegur og tímafrekur. Stundum séu fjölskyldur líka að vinna hver í sinni áttinni og hreinlega þurfi fleiri en einn bíl, já, eða kannski að það búi ungmenni á heimilinu sem eru komin með eigin bifreið en eiga ekki tilkall til íbúakorta, að ógleymdum nemunum í menntaskólum miðborgarinnar. Þeir þurfi líka að borga fyrir stæði. Esther tekur fram að hún sjái ekki heldur hvaða rök hníga að því að hafa gjaldskyldu til 21 alla daga og setja hámark á hversu lengi bifreið má vera lagt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ferðamenn nefna stærstu mistökin sem þeir gerðu á Íslandi

Ferðamenn nefna stærstu mistökin sem þeir gerðu á Íslandi
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Brynjar gagnrýnir ÍSÍ harkalega – „ÍSÍ og Lárus Blöndal bregðast foreldrum og iðkendum Aþenu“

Brynjar gagnrýnir ÍSÍ harkalega – „ÍSÍ og Lárus Blöndal bregðast foreldrum og iðkendum Aþenu“
Fréttir
Í gær

Logi í leynilegri upptöku: „Mannorðið mitt er bara ónýtt. Ég er rekinn í fyrsta sinn á ævinni“

Logi í leynilegri upptöku: „Mannorðið mitt er bara ónýtt. Ég er rekinn í fyrsta sinn á ævinni“
Fréttir
Í gær

Guðna líst ekkert á blikuna: „Ég spyr ráðamenn þjóðarinnar HVENÆR ER NÓG NÓG?“

Guðna líst ekkert á blikuna: „Ég spyr ráðamenn þjóðarinnar HVENÆR ER NÓG NÓG?“