Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað til fundar í Salnum í Kópavogi næstkomandi laugardag. Líklegt verður að teljast að þar muni hún tilkynna um framboð sitt til formennsku í flokknum en fjöldi Sjálfstæðismanna, ekki síst í hennar kjördæmi, Suður, hafa skorað á hana að bjóða sig fram, en þó er að sjálfsögðu ekkert öruggt í þeim efnum. Guðrún sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu þar sem hún boðar til fundarins. Tilkynningin er svohljóðandi:
„Kæru vinir.
Fyrir fjórum árum, eftir áratuga starf í atvinnulífinu, fann ég köllun til að bjóða fram krafta mína í þeirri viðleitni að móta íslenskt samfélag. Sú vegferð hefur verið krefjandi, lærdómsrík og gefandi. Ég hef notið hverrar stundar og hef lagt mig fram um að standa vörð um þau grunngildi sem við sjálfstæðismenn trúum á – frelsi, jafnrétti og rétt einstaklinga til að nýta krafta sína til fulls.
Á þessum tímamótum í Sjálfstæðisflokknum tel ég rétt að taka samtal við flokksfélaga mína, en mér þætti vænt um að sjá ykkur og eiga með ykkur góða stund í Salnum í Kópavogi á laugardaginn kemur, 8 febrúar, klukkan 14.“