Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birtir í upphafi hvers mánaðar vísitölu valinna hrávara á innri vef sínum, veltan.is. Nú hafa verið birtar tölur fyrir janúar og að sögn RSV vekur þar mesta athygli að ekkert lát virðist á verðhækkunum á kakói, kaffi , gulli og nautakjöti.
Hvað kakó, kaffi og appelsínur varðar má rekja verðhækkanir að einhverju leyti til uppskerubrests í helstu ræktunarlöndum. Eins hefur tilfærsla á gulli frá Bretlandi til Bandaríkjanna verið þónokkur sem hefur valdið ólgu á mörkuðum. Verðhækkanir á nautakjöti megi svo skýra meðal annars með þurrki á ræktunarsvæðum, verðhækkunum á fóðri og svo hærri vaxtakostnaði.