Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast víða um land vegna óveðursins sem nú gengur yfir. Á Völlunum í Hafnarfirði hefur myndast nokkurs konar stöðuvatn.
Björgunarsveitir hafa sinnt útköllum á höfuðborgarsvæðinu og víða um lands í dag eftir að óveðrið skall á um klukkan 14. Foktjón er víða, bæði á byggingum og lausamunir hafa fokið út um allt.
Algengt er að sjá ruslatunnur á hlið og sorpi sáldrað um gangstéttir og garða. Litlir trékofar hafa farið af stað og mölbrotnað í rokinu, sem líkist eiginlega meira fellibyl en nokkru veðri sem Íslendingar eiga að venjast.
Landsbjörg tók ljósmyndir af aðgerðum í dag þegar björgunarsveitarmenn voru í óða önn að festa niður tjaldvagna og fleira.
Ungur maður birti myndband af vatnselgnum á Völlunum á Instagram. Hefur myndbandið farið eins og eldur í sinu um netheima.