Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, bendir á hversu galið það er að sjá þingmenn rífast út af þingflokksherbergi á sama tíma og Landspítalinn er á logandi rauðu stigi, yfirfullur og sjúklingar þurfi að gera sér að góðu að liggja þétt á göngunum. Vonandi ætli nýtt þing að gera eitthvað í þessum málum svo heilbrigðisstarfsfólk neyðist ekki til að hóta setuverkfalli, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerði í herbergjadeilunni.
Guðbjörg skrifaði á Facebook í gær:
„Nýverið deildu Samfylking og Sjálfstæðisflokkur um hver ætti að fá stærsta þingflokksherbergið en það hefur víst sögulegt og tilfinningalegt gildi fyrir einhverja. Á sama tíma er Landspítali á rauðu stigi, deildir og gjörgæslur yfirfullar og um 50 manns bíða innlagnar á Bráðamóttökunni. Þar hafa fæstir sjúklingar herbergi og liggja m.a. á ganginum með tærnar í höfuðið á næsta sjúklingi. Myndi ég halda að botninum væri náð en svo er ekki – það er nefnilega enginn skilgreindur botn á bráðamóttökunni og lengi getur greinilega vont versnað.
Húsnæði bráðamóttökunnar hefur líka sögulegt gildi þar sem undanfarin ár hefur verið lygilegt að fylgjast með hvað hægt er að fjölga endalaust af sjúklingum á sömu fermetrana og virðist sú saga engan endi taka. Alvöru plankastrekkjari þar! En fyrir starfsfólkið hefur húsnæðið án efa tilfinningalegt gildi því það vill sínum sjúklingum einungis hið besta, þ.á.m. öruggt og gott húsnæði þar sem a.m.k. virðing fyrir friðhelgi einkalífsins er virt.“
Guðbjörg vísar þarna í deilu sem átti sér stað um þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins en Samfylkingin, sem er stærsti flokkurinn á Alþingi í dag, hafði krafist þess að fá stærsta þingflokksherbergið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft til afnota í rúm 80 ár. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Hildur Sverrisdóttir, vísaði til þess að herbergið hefði mikið tilfinningalegt gildi fyrir flokkinn og að þingmenn væru tilbúnir að fara í setuverkfall til að halda herberginu. Skrifstofustjóri Alþingis úrskurðaði svo að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti ekki að víkja.
Guðbjörg bendir á að starfsfólk Landspítalans væri margt alveg til í að fara í setuverkfall bara til að fá fyrir sjúklinga sína meira rými, jafnvel minna en sem nemur þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Vonandi þurfi ekki að koma til slíks.
„En starfsfólkið er mikið dugnaðarfólk sem alltaf stendur vaktina og reddar þessu í aðstæðum sem fæstir geta ímyndað sér (eða hugsað sér að vinna í). Það vantar ekki og á það treystum við öll.
Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn í setuverkfall til að halda þingflokksherberginu en sem betur fer tókst að lenda deilunni áður en til þess kom. Ég veit um starfsfólk sem væri alveg til í að fara í setuverkfall fyrir mun færri fermetra en þingmenn hafa og þá ekki einu sinni fyrir sig sjálft heldur sína sjúklinga. En vonandi kemur ekki til þess enda ætla ég að alþingismenn séu, eins og starfsfólk Bráðamóttökunnar, mikið dugnaðarfólk sem ætlar nú að standa vaktina og redda þessu (og vinna þó í margfalt betri aðstæðum) og því treystum við öll.
Velkomin til starfa kæru alþingismenn
ÞETTA ERU STÓRU MÁLIN“