Rúmlega þriðjungur fólks stelur vörum þegar það afgreiðir sig sjálft í sjálfsafgreiðslukössum. Meirihlutinn vill frekar fara í sjálfsafgreiðslukassa frekar en á kassa með starfsmanni.
Þetta kemur fram í könnun Toluna Harris Interactive sem greint er frá í breska miðlinum The Grocer. Þúsund einstaklingar voru spurðir.
Samkvæmt könnuninni viðurkenna 37 prósent að hafa stolið. Það er að hafa ekki skannað einn eða fleiri hlut sem þeir tóku með sér út. 63 prósent segjast alltaf skanna alla hluti og greiða fyrir þá.
Í könnuninni kemur einnig fram að 32,5 prósent viðurkenni að hafa vigtað vörur á rangan hátt. Það er muni eins og grænmeti og ávexti, sem gjarnan eru seldir eftir þyngd.
38 prósent sögðust hafa skráð inn rangan hlut. Til dæmis að hafa skráð inn lauk þegar þeir voru í raun að kaupa vínber, sem er mun dýrari vara.
Samkvæmt könnuninni eru sjálfsafgreiðslukassar mjög vinsælir hjá viðskiptavinum. 54,2 prósent vilja frekar nota þá heldur en kassa með starfsmanni en aðeins 29,8 prósent vilja frekar fara á þannig kassa en í sjálfsafgreiðslu. 16 prósent er nokk sama hvorn kassann er farið á.
Að sögn Luciu Juliano, yfirmanni hjá könnunarfyrirtækinu, kemur það á óvart hversu margir viðurkenna að hafa stolið á sjálfsafgreiðslukassa. Þeir sem stela mest eru karlmenn undir 35 ára aldri.
„Þessi nýju kerfi sjálfsafgreiðslu hafa búið til nýja tegund af búðarþjófi,“ segir Matt Hopkins, afbrotafræðingur hjá Leicester háskóla. „Það er verið að búa til tækifæri fyrir fólk sem myndi annars ekki hugsa um að stela.“