Starfsfólk Landspítalans fékk í gær tilkynningu þess efnis að ekki sé veitt launað leyfi þann tíma sem starfsfólk spítalans þurfi að vera heima hjá börnum sínum vegna verkfallsaðgerða í leik- og grunnskólum.
Boðið er upp á þrjá möguleika fyrir starfsmenn sem verða fyrir áhrifum af verkfallinu. Hægt er að nýta orlofsdaga í samráði við yfirmann. Starfsmaður getur í öðru lagi tekið launalaust leyfi þá daga sem viðkomandi þarf að vera heima með börnum sínum. Einnig er að hægt að leysa málið með breytingu á vöktum í samráði við stjórnanda.
Samkvæmt heimildum DV er margt starfsfólk mjög uggandi vegna ástandsins og óttast tekjutap ef verkföll dragast á langinn, sérstaklega foreldrar barna á leikskólum sem eru allt of ung til að hægt sé að skilja þau eftir ein heima. Bent er á að foreldrar ungra barna sem starfa á spítalanum hafi mismikið bakland hvað varðar barnagæslu en megi ekki við tekjutapi vegna verkfallsins, m.a. vegna húsnæðislána. Starfsfólkið hefur skilning á þessari afstöðu spítalans en staðan sé mjög alvarleg.