fbpx
Þriðjudagur 04.febrúar 2025
Fréttir

Sótt að Gunnari Þórðarsyni: Kröfðust þess að leigjandi íbúðar hans yrði borinn út – Segja að börnin þori ekki heim til sín

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 4. febrúar 2025 19:29

Gunnar Þórðarson. Youtube-skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 18. desember síðastliðinn úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness um aðfararbeiðni GGG Fjárfestinga hf. á hendur þremur einstaklingum. Málið varðar tvíbýlishús við Smáratún í Reykjanesbæ og snerist krafa GGG Fjárfestinga um að einstaklingarnir yrðu bornir út úr íbúð á neðri hæð hússins með beinni aðfarargerð.

Fasteignin er í eigu hins þjóðkunna tónlistarmanns Gunnars Þórðarsonar og eiginkonu hans og snerist aðfararbeiðnin gegn þeim tveimur og leigjanda þeirra í íbúðinni, en hjónin búa þar ekki sjálf heldur leigja út íbúðina. GGG Fjárfestingar eiga íbúðina á efri hæð hússins og hafa leigt hana út til barnafjölskyldu. Þeir leigjendur hafa kvartað mjög undan sambýlinu við leigjanda Gunnars og sakað leigjandann um stanslaust ónæði, drykkjulæti, stöðugan gestagang að nóttu sem degi og fíkniefnaneyslu.

Í málsvatvikakafla úrskurðarins segir að ónæðið frá leigjandanum hafi verið viðvarandi frá ágústmánuði árið 2020 en þá fluttu leigjendur GGG Fjárfestinga inn í húsið. Drykkjulæti séu daglegt brauð og önnur neysla fíkniefna og umgangur aðila sem séu í annarlegu ástandi.

Gunnar, eiginkona hans og leigjandi þeirra hafna þessu og halda því fram að leigjendur GGG Fjárfestinga leggi fæð á leigjandann umdeilda og það valdi tilhæfulausum tilkynningum þeirra til lögreglu. GGG Fjárfestingar halda því fram að rökstuddur grunur sé um að leigjandinn sé að selja fíkniefni og lögreglan á Suðurnesjum hafi ítrekað þurft að hafa af honum afskipti. Hafi húsleit verið gerð hjá honum í febrúar árið 2023.

Er einnig fullyrt að leigjandinn hafi ítrekað hótað fjölskyldunni á efri hæðinni og gripið til hefndaraðgerða vegna tilkynninga hennar til lögreglu. Þvagi og drykkjum hafi verið skvett á bílinn þeirra og tröppur. Eftir að lögregla hafi verið kvödd til vegna hávaða um nætur hafi leigjandinn hækkað í tónlistinni.

Mikil kannabislykt sé frá íbúðinni þar sem leigjandi Gunnars býr og mikill sóðaskapur sé kringum íbúðina.

Þá er sagt frá því að börnin á heimilinu stríði við mikinn ótta vegna ástandsins og séu hrædd við að fara heim til sín. Fjölskyldan hafi þurft að leita sér ráðgjafar vegna ástandsins.

GGG Fjárfestingar byggja kröfur sínar á 55. grein laga um fjöleignarhús en þar er kveðið á um að ef eigandi, íbúi húss eða afnotahafi gerist sekur um gróf eða ítrekuð brot á skyldum sínum gagnvart húsfélaginu eða eigendum þá geti húsfélagið lagt bann við búsetu og dvöl hins brotlega í húsinu, gert honum að flytja og krafist þess að hann selji eignarhluta sinn.

Segist hafa orðið fyrir ónæði af tilhæfulausum tilkynningum

Leigjandinn segir að lýsing GGG Fjárfestinga á málavöxtum gefi ekki rétta mynd af stöðu mála og hann hafi ekki valdið fjölskyldunni meira ónæði en gengur og gerist í tvíbýli. Hann sakar fjölskylduna um að hafa valdið sér ónæði með tilhæfulausum tilkynningum til lögreglu. Einnig hafi „fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda“ ráðist að honum líkamlega og greitt honum hnefahögg og hann hafi því upplifað sig óöruggan á eigin heimili.

Gunnar Þórðarson og eiginkona hans kröfðust þess að aðfararbeiðninni yrði vísað frá eða henni hafnað þar sem henni væri ranglega beint að þeim sem eigendum íbúðarinnar, en þau eru ekki búsett í henni. Þau séu ekki réttu aðilarnir til að bera skyldu í málinu heldur eigi leigjandinn að gera það. Einnig taka þau undir með leigjandanum um að hann hafi ekki valdið nábúunum eins miklu ónæði og GGG Fjárfestingar saka hann um.

Héraðsdómur hafnar kröfunni

Í niðurstöðum Héraðsdóms Reykjaness í málinu er bent á að leigjandinn hafi ekki fengið skriflega viðvörun frá eigendum efri hæðarinnar heldur var slík kvörtun eingöngu send á eigendurna. Telur dómurinn það ekki samræmast ákvæðum í lögum um fjöleignarhús varðandi útburðarkröfu.

Einnig er því haldið fram að þau gögn sem lögð voru fram við dóminn um meint ónæði leigjandans séu ófullnægjandi. Til dæmis sé ekki hægt að staðreyna innihald ónæðiskvartana til lögreglu en lagt var fram yfirlit yfir þær.

Einnig er því hafnað að eigendur íbúðarinnar, Gunnar Þórðarson og eiginkona hans, séu samsömuð leigjanda sínum með þeim hætti sem gert er með aðfararbeiðninni og er því hafnað að þau séu réttir aðilar til að bera skyldu um útburð.

Niðurstaða úrskurðarins er sú að kröfu GGG Fjárfestinga um útburð á eigendum og leigjanda út úr íbúðinni er hafnað. Þurfa GGG Fjárfestingar að greiða hinum stefndu samtals 1,3 milljónir í málskostnað.

Málinu er ekki lokið

Samkvæmt heimildum DV undirbýr lögmaður GGG Fjárfestinga í málinu, Jónas Örn Jónasson hjá Reykjavík Lawyers, einkamál á hendur Gunnari og eiginkonu hans þar sem þess verður krafist að þau selji íbúðina. Ofangreind aðfararbeiðni flokkast undir svokallað flýtimál en framundan er hefðbundið einkamál og er unnið að stefnu í málinu. Verður þeim hjónum birt stefna í málinu innan skamms og þar krafist að þau selji íbúðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Héraðsdómur Reykjaness fór ekki að lögum í forsjármáli – Fær skammir í hattinn frá Landsrétti

Héraðsdómur Reykjaness fór ekki að lögum í forsjármáli – Fær skammir í hattinn frá Landsrétti
Fréttir
Í gær

Neyðarástand skapaðist um borð í seglskipi skammt undan landi – Fjölmargt fór úrskeiðis

Neyðarástand skapaðist um borð í seglskipi skammt undan landi – Fjölmargt fór úrskeiðis
Fréttir
Í gær

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Í gær

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum