Fylgi Flokks fólksins dalar um 2,5 prósentustig á milli mánaða samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi Viðreisnar rís um 2,4 og samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er nær óbreytt.
Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn með 21,7 prósent, í janúar. Það er 0,3 prósentum meira en í síðustu könnun sem gerð var í desember.
Viðreisn fer úr 13,8 prósentum í 16,2 en Flokkur fólksins lækkar úr 13,1 í 10,6 prósent. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 48 prósent og hækkar lítillega á milli mánaða. Nær 69 prósent styðja ríkisstjórnina.
Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn með 20,5 prósent en var með 20,1 fyrir mánuði. Er það því bæting um 0,4 prósent.
Fyrir utan Sósíalistaflokkinn hækka aðrir flokkar lítillega. Miðflokkurinn mælist með 12,7 prósent, Framsóknarflokkurinn með 6,7 og Píratar með 3,5 prósent. Sósíalistar lækka úr 6 prósentum í 5,2. Vinstri græn mælast með um 2 prósent.
Könnunin var gerð 2. janúar til 2. febrúar. Heildarúrtak var 10.908 og svarhlutfall 48,6 prósent.