Mannlíf fjallaði í gær um efni upptökunnar og hélt uppteknum hætti í morgun. Kemur fram í umfjöllun Mannlífs að upptakan hafi verið lögð fram í kærumáli á hendur Vítalíu Lazareva og Arnari Grant fyrir fjárkúgun.
Sjá einnig: Logi segist aldrei hafa snert Vítalíu í meintri leynilegri upptöku
Eins og kunnugt er missti Logi starf sitt sem þáttarstjórnandi og pistlahöfundur hjá Árvakri í kjölfar þess að Vítalía sakaði hann um kynferðisbrot. Það gerði hún í hlaðvarpsviðtali við Eddu Falak í byrjun árs 2022. Meint brot var sagt hafa átt sér stað í kjölfar þess að Logi kom að Vítalíu og Arnari í ástaratlotum inni á herbegi á Hótel Hamri í Borgarnesi.
Rannsókn málsins var síðan felld niður en í umfjöllun Mannlífs í gær kom fram að Vítalía og Arnar hafi tekið aftur saman skömmu eftir að Logi tók samtalið upp. Dró Vítalía til baka ásakanir um að Logi hefði brotið gegn henni en þá þegar var líf Loga komið á annan endann, hann búinn að missa vinnuna og mannorðið.
Í samtalinu sem Mannlíf birtir í morgun ræða Arnar og Logi um málið og er haft eftir Arnari að Vítalía hafi misnotað MeToo-byltinguna. „Þegar konur eru svo farnar að misnota þetta og ganga svo fram til að hefna sín. Það er svo rosalega ljótt að gera þetta. Ef að fólk vissi að á sama tíma og hún er að gera þetta er hún að biðja um peninga,“ er haft eftir honum.
Eins og komið hefur fram voru gerðar tilraunir til að semja um fjárbætur við þá sem hún sakaði um brot í umræddri sumarbústaðarferð. Herma heimildir Mannlífs að mennirnir hafi verið tilbúnir að greiða 3-4 milljónir króna til að kaupa sér frið, en Arnari og Vítalíu þótt upphæðin of lág. Fram hafi komið krafa um allt að 150 milljónir króna eftir skatt.
Í upptökunni sem Mannlíf fjallar um kemur fram að Logi hafi lýst yfir vilja sínum til að bregðast við og útskýra málið en Arnar ráðið honum frá því.
„Ef þú gerir það opinberlega þá færðu ennþá meiri skít yfir þig. Það er ekki rétta leiðin eins og staðan er í dag,“ mun Arnar hafa sagt en eins og kemur fram hér að ofan stóðu hann og Vítalía saman í málinu og lék Arnar því tveimur skjöldum í símtalinu.
Ítarlega er fjallað um málið á vef Mannlífs en þar er boðuð enn frekari umfjöllun á morgun.