Héraðsdómur hefur sakfellt vörubílstjóra fyrir að hafa ekið á átta ára dreng, Ibrahim Shah Uz-Zaman, þegar hann var að beygja til hægri inn innkeyrslu að bifreiðastæði við Ásvallalaug í Hafnarfirði í október 2023, með þeim afleiðingum að Ibrahim lést samstundis. Hlaut maðurinn skilorðsbundinn dóm.
Var hann ákærður fyrir manndráp af gáleysi auk fjölda brota á umferðarlögum. Var hann sagður í ákæru hafa ekið inn á bifreiðastæðið án nægilegrar aðgæslu, án þess að gefa stefnuljós og án þess að virða forgang hjólreiðamanna.
Vörubílstjórinn sagði fyrir dómi að hann teldi sig hafa sýnt nægilega aðgæslu við aksturinn og ítrekaði fyrri framburð sinn um að hann hefði aldrei séð drenginn. Hann hefði margra áratuga reynslu af akstri vörubifreiða. Fram kom fyrir dómi að hann hefði verið að aka vörubifreiðinni inn á bifreiðastæðið til að snúa við. Hann neitaði að hafa sýnt af sér gáleysi og krafðist sýknu.
Í niðurstöðu dómsins segir að það sjáist bersýnilega á upptöku úr öryggismyndavél af slysinu að vörubílstjórinn hafi ekki gefið stefnuljós áður en hann beygði inn á bifreiðastæðið og ók í kjölfarið á Ibrahim.
Af upptökunni megi einnig ráða að vörubílstjórinn hafi átt að geta séð Ibrahim út um hægri hliðarrúðu þegar hann hjólaði á göngustíg við hlið bifreiðarinnar. Sviðsetning lögreglu á slysinu hafi einnig sýnt fram á að Ibrahim hafi átt að vera sýnilegur í hliðarspeglum bifreiðarinnar í 34 sekúndur áður en hann var beygt inn á bifreiðastæðið. Framburður bílstjórans um skert útsýni til hægri úr bifreiðinni þýði að enn meiri ástæða hafi verið fyrir hann að gæta sérstaklega að umferð hægra meginn við bifreiðina.
Einnig segir dómurinn að það hvíli sérstök skylda á ökumönnum svo stórra bifreiða að gæta sérstakrar varúðar í akstri sem bílstjórinn hafi ekki gert. Hefði hann gætt betur að sér áður en hann beygði inn á stæðið séu allar líkur á því að hann hefði séð Ibrahim.
Það er því niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness að auk brota á umferðarlögum sé vörubílstjórinn sekur um að hafa orðið valdur að dauða Ibrahims með stórfelldu gáleysi. Engu breyti þó varúðarmerkingum á svæðinu hafi verið ábótavant.
Við ákvörðun refsingar var litið til hins stórfellda gáleysis en einnig þess að andleg líðan vörubílstjórans eftir slysið hafi verið verulega slæm. Því þótti við hæfi að dæma hann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fellur refsingin niður að tveimur árum liðnum haldi vörubílstjórinn skilorð.
Foreldrar Ibrahims kröfðust 10 milljóna króna hvort um sig í miskabætur en héraðsdómi þótti við hæfi að vörubílstjórinn myndi greiða þeim hvoru um sig 4 milljónir og þarf hann því að greiða 8 milljónir, auk vaxta. Þar að auki þarf hann að greiða föður Ibrahim tæplega 1 milljón í útfararkostnað.