fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Skagfirðingar fúlir út í vegagerðina – Segjast ekki sitja við sama borð og aðrir landsmenn

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 3. febrúar 2025 13:30

Ráðhús sveitarfélagsins Skagafjarðar á Sauðárkróki. Mynd/Skagafjörður

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vegagerðin er með í vinnslu breytingar á leiðakerfi Landsbyggðarstrætó en allar almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins eru á verksviði stofnunarinnar. Hefur Vegagerðin undanfarið verið að kynna hugmyndir sínar að breytingum á kerfinu fyrir sveitarstjórnum á landsbyggðinni og öðrum aðilum sem málið varðar. Byggðaráð sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir mikilli ónægju með kynningu Vegagerðarinnar og segir stefna í að þjónusta almenningsvagna verði skert á Norðurlandi. Krefst ráðið þess að íbúar sveitarfélagsins og aðrir sem búa á Norðurlandi vestra njóti sömu þjónustu almenningssamgangna og aðrir landsmenn. Vegagerðin leggur hins vegar áherslu á að endurskoðun leiðakerfisins sé ennþá í vinnslu og ekkert sé fastmótað í þessum efnum.

Samkvæmt fundargerð síðasta fundar byggðaráðs virðist það hins vegar líta svo á að nú þegar hafi verið tekin ákvörðun um skerðingu á strætóferðum á Norðurlandi. Í fundargerðinni segir að ákveðið hafi verið að leið 57 muni framvegis fara eina ferð á dag í stað tveggja eins og nú er. Leið 57 ekur á milli Akureyrar og Reykjavíkur og kemur við á tveimur stöðum í sveitarfélaginu Skagafirði á leiðinni, Varmahlíð og Sauðárkróki.

Í fundargerðinni segir einnig að hugmyndir um nýja akstursleið sem tengi Hvammstanga, Blönduós og Sauðárkrók hafi ekki hlotið fjármögnun og því verði ekki unnið áfram með þá útfærslu eins og að hafi verið stefnt.

Mótmæla harðlega

Í fundargerðinni lýsir byggðaráðið yfir mikilli óánægju með þessi áform, mótmælir þeim harðlega og vill að íbúar Norðurlands vestra fái tækifæri til að búa við betri þjónustu almenningssamgangna:

„Byggðarráð mótmælir harðlega fyrirætluðum niðurskurði í almenningssamgöngum milli Akureyrar og Reykjavíkur og harmar að ekki hafi verið horft á hugmyndir íbúa Norðurlands vestra um almenningssamgöngur milli þéttbýlisstaða í landshlutanum. Byggðarráð skorar á innviðaráðherra að taka málið til skoðunar með það í huga að íbúar Norðurlands vestra sitji við sama borð þegar kemur að almenningssamgöngum og aðrir landsmenn. Ekki síst þarf að horfa til þess að almenningssamgöngur eru sérstaklega mikilvægar fyrir eina framhaldsskólann á Norðurlandi vestra ásamt tómstunda- og íþróttastarfi. Er þessi ákvörðun í hróplegu ósamræmi við 3. grein stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins þar sem segir að auka eigi fjárfestingar í samgöngum um land allt.“

Í 3. grein stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar segir meðal annars eftirfarandi:

„Með því að auka fjárfestingu í samgöngum og hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt. Ríkisstjórnin mun rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vinna á viðhaldsskuld í vegakerfinu. Ráðist verður í mikilvægar úrbætur í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins til að greiða fyrir umferð á stofnvegum, efla almenningssamgöngur og styðja við fjölbreytta ferðamáta.“

Allt í vinnslu

Vegagerðin hefur kynnt hugmyndir sínar um breytingar á þjónustu Landsbyggðarstrætó fyrir fleiri sveitarfélögum. DV óskaði eftir upplýsingum frá stofnuninni um allar fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfinu og hvaða forsendur lægju að baki hverri og einni breytingu. Vegagerðin segir að breytingarnar séu enn á vinnslustigi og ekki fastmótaðar. Því sé ótímabært að greina frá þeim í heild sinni:

„Vegagerðin fer með rekstur landsbyggðarstrætó og hefur á síðastliðnu ári unnið að heildstæðum lagfæringum á leiðarkerfinu. Í aðdraganda verkefnisins voru haldnir samráðsfundir með sveitarstjórnarfólki, skipulagsfulltrúum, starfsmönnum skóla og íþróttaiðkunar og öðrum hagaðilum víðsvegar um landið.

Fyrirhugað er að bjóða út akstur á flestum leiðum í næsta mánuði (febrúar, innsk. DV) en verkefnið er enn í vinnslu. Nýverið hafa átt sér stað fjölmargir kynningarfundir með hagaðilum þar sem kynntar eru helstu niðurstöður sem úr þessari vinnu hafa komið. Um er að ræða kynningar og vinnufundi þar sem verkefnið er enn í vinnslu og þróun. 

Vegna þess að vinna við endurskoðun leiðakerfisins er enn í gangi, hefur ekki verið tímabært að birta opinberlega niðurstöður eða endanlegar útfærslur.“

Miðað við þessi svör Vegagerðarinnar virðist ekki öruggt að þjónusta Landsbyggðarstrætó verði skert á Norðurlandi eins og byggðaráð Skagafjarðar telur vera ljóst. Hvort þær hugmyndir um þjónustuna sem Vegagerðin hefur kynnt fyrir Skagfirðingum eigi eftir að breytast á eftir að koma í ljós en hversu líklegt er að það gerist er óljóst á þessari stundu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólöf Tara er látin

Ólöf Tara er látin
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vissi ekkert hvað hann var að gera þegar hann olli skelfilegu umferðarslysi

Vissi ekkert hvað hann var að gera þegar hann olli skelfilegu umferðarslysi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sigurði og félögum birt ákæra í stóra metamfetamín-málinu – Reyndu að smygla metamfetamín-kristöllum með bíl

Sigurði og félögum birt ákæra í stóra metamfetamín-málinu – Reyndu að smygla metamfetamín-kristöllum með bíl