Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir fáránlegt að halda því fram að pólitík hafi sett strik í reikninginn í kjaradeilu kennara um helgina. Í samtali við Vísi segir Heiða að sveitarfélögin hafi um helgina verið tilbúin að sætta sig við verulegar kjarabætur sem hefði tryggt kennurum vel yfir 20 prósenta launahækkun á samningstíma.
Hún segir engan samningsvilja hafa verið hjá Kennarasambandinu.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagðist í dag ekki upplifa heilindi í samningsvilja hins opinbera. Hann sagði við mbl.is í dag að um helgina hafi farið af stað „einhver pólitískur hráskinnaleikur“ og því hafi ekkert orðið af samningum um helgina þó svo að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi fallist á innanhússtillögu ríkissáttasemjara.
Verkföll hófust að nýju í dag í 14 leikskólum og sjö grunnskólum.