fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Neyðarástand skapaðist um borð í seglskipi skammt undan landi – Fjölmargt fór úrskeiðis

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 3. febrúar 2025 19:30

Seglskipið Ópal á siglingu fyrir nokkrum árum. Mynd: Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá sér lokaskýrslu vegna atviks sem varð í mars á síðasta ári. Þá var verið að draga seglskipið Ópal frá Ísafirði til Húsavíkur þegar dráttartaug slitnaði. Töluverð ölduhæð og vindur var á svæðinu. Þegar stýri Ópals hætti að virka var sent út neyðarkall þar sem skipið var skammt frá landi. Það tókst þó að koma í veg fyrir strand en nefndin segir nokkurn fjölda atriða hafa orsakað atvikið. Búnaði um borð hafi verið verulega ábótavant, illa hafi verið gengið frá dráttartauginni, veður hafi verið vanmetið áður en lagt var af stað, samskipti dráttarskipsins og Ópals hafi ekki verið nógu traust og hluti áhafnar seglskipsins hafi enga reynslu haft af siglingum og alls ekki fengið viðeigandi aðstoð eftir atvikið.

Ópal er rétt yfir 20 metrar á lengd en um borð í skipinu var 4 manna áhöfn. Skipið var dregið af vélbátnum Örkinni en hann er eilítið minni en Ópal og 17 brúttótonnum léttari. Um borð í Örkinni var 3 manna áhöfn.

Klukkan 14:47 voru skipin tvö komin út úr Ísafjarðardjúpi og stödd vestur af Straumnesi þegar dráttartaugin slitnaði. Í skýrslunni kemur fram að ekki var þegar í stað óskað eftir aðstoð. Klukkan 15:33 kallaði Ópal hins vegar í talstöð að skipið hefði misst stýrið og lýst var yfir neyðarástandi. Skipverjar á Örkinni heyrðu hins vegar ekki neyðarkallið. Veður var þá í verra lagi. Vindur að austnorðaustan, 15-20 metrar á sekúndu og ölduhæð 3,5 metrar.

Biluð vél

Ástæða þess að verið var að draga Ópal til Húsavíkur var að vél þess var biluð en skipið er gert þaðan út af fyrirtækinu Norðursigling en fyrirtækið býður upp á ýmis konar ferðir fyrir ferðamenn, t.d. hvalaskoðun.

Skipið hafði verið í höfn á Ísafirði í fimm daga vegna veðurs þegar skipstjórinn taldi að veðurgluggi, þar sem hægt væri að draga skipið til Húsavíkur, myndi opnast snemma þennan dag. Upphaflega var áætlað að leggja af stað um fimmleytið um nóttina en það dróst til klukkan 08:41 um morguninn.

Eins og áður segir slitnaði dráttartaugin klukkan 14:47. Skipstjóri Ópals tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að ekki væri óskað eftir aðstoð þar sem siglt væri undir seglum. Klukkan 15:33 kallaði skipstjórinn hins vegar aftur í stjórnstöðina og lýsti yfir neyðarástandi þar sem stýri skipsins hefði hætt að virka.

Siglingatölva Ópals var þá rafmagnslaus en skipstjórinn sá að skipið var það skammt frá landi að nauðsynlegt var að senda út neyðarkall en samkvæmt skýrslunni var skipið, þegar minnst var, eina sjómílu frá landi.

Heyrðu ekki

Áhöfnin á dráttarskipinu, Örkinni, heyrði hins vegar ekki neyðarkallið frá Ópal þar sem skipverjar voru allir út á þilfari að draga inn dráttartaugina.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, nærstaddir bátar og björgunarsveitir voru kölluð til. Norskt skip var fyrst á staðinn en björgunarskip fylgdi fljótlega í kjölfarið.

Rétt fyrir klukkan 18 um kvöldið náðist að laga stýrið á Ópal og tengja skipið á ný við Örkina og var þá snúið aftur til Ísafjarðar.

Reynslulitlir áhafnarmeðlimir og gamlir vírar

Um dráttartaugina segir í skýrslunni að hún hafi að hluta verið vafin inn í gúmmí og hafi slitnað á þeim stað.

Í skýrslunni segir einnig að 2 af 4 áhafnarmeðlimum á Ópal hafi verið reynslulitlir. Skipstjórinn hafi starfað á skipinu af og til í átta ár, þó ekki allan tímann sem skipstjóri. Hinir skipverjarnir komu frá þremur löndum. Einn frá Grikklandi með litla reynslu til sjós, annar frá Írlandi sem var óreyndur og hafði komið um borð örfáum tímum fyrir brottför frá Ísafirði, eftir stanslausan akstur frá Húsavík, og sá þriðji frá Danmörku sem starfar öllu jöfnu á norsku skólaskipi, sem er seglskip. Daninn hafði mikla þekkingu og reynslu af seglskipum en var ekki lögskráður á skipið.

Samkvæmt skýrslunni var ástæða þess að stýri Ópals gaf sig að vírar sem nýttir voru til að hreyfa það voru frá 1980, en skipið sjálft var smíðað 1951, og einn þeirra gaf eftir. Skipstjórinn og einn áhafnarmeðlima hafi hins vegar náð með útsjónarsemi að framkvæma viðgerð á stýrinu til bráðabirgða með því að tengja slitna vírinn upp á nýtt.

Ekkert neyðarstýri

Áður en viðgerðin var gerð reyndu skipverjar að koma fyrir neyðarstýri sem er sveif sem á að vera hægt að koma fyrir í rauf, svokölluðum stýrisstamma, á þilfarinu. Setlaug var hins vegar fyrir stammanum og þurftu skipverjar að fjarlægja hana fyrst en miðað við myndir í skýrslunni var setlaugin nokkuð stór og þung og tveir skipverja meiddust lítillega við að koma henni frá. Þegar reynt var síðan að koma neyðarstýrinu fyrir passaði það ekki í stammann.

Í skýrslunni kemur einnig fram að samkvæmt vitnisburði áhafnarmeðlima hafi öryggismálum um borð í Ópal verið ábótavant. Þeir sögðust ekki hafa fengið nýliðafræðslu, en þó hafi verið farið yfir helstu öryggisatriði, og að um borð í skipinu hefðu verið öryggisbeisli sem hefðu fengið lítið viðhald. Engar öryggislínur sem hægt var að festa sig við hefðu verið til staðar.

Lítil þekking

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir ljóst að skipstjóri Ópals hafi verið undir miklum þrýstingi að leggja af stað. Útgerðin hafi ekki leyft honum að lögskrá áhafnarmeðlimi og sagt honum, eftir að hafa tilkynnt Samgöngustofu um hvað stæði til, að hann þyrfti ekki að hafa stýrimann þar sem aðeins um drátt væri að ræða.

Nefndin segir að það sé ámælisvert að hinir reynslulitlu meðlimir áhafnarinnar hafi ekki fengið neina aðhlynningu þegar skipið kom aftur til Ísafjarðar þar sem ljóst sé að þeir hafi verið í áfalli.

Samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar var margt sem fór úrskeiðis. Óráðlegt hafi verið að sigla af stað í svo litlum veðurglugga. Þá hafi frágangur á dráttartauginni ekki verið nægjanlega góður og því hafi hún slitnað. Nefndin telur sömuleiðis ámælisvert að aðgengi að neyðarstýrinu hafi verið hindrað með setlauginni og að stýrisstöngin hafi ekki passað. Telur nefndin að skoðun á skipinu hvað þetta varðar hafi verið ábótavant en á öðrum stað í skýrslunni kemur fram að seglskip séu fá á Íslandi og þekking skoðunarstofa á seglabúnaði og hvernig skuli meta ástand hans sé hverfandi. Skipið sé þó búið vél og hafi þess vegna fengið leyfi til farþegaflutninga.

Að lokum bendir nefndin á mikilvægi þess að hlúð sé að skipverjum sem hafi lent í hættuástandi, þá sérstaklega þeim sem hafi litla reynslu, og það sé skylda dráttarskips að vera með skýr og stöðug samskipti við hið dregna skip.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Furðar sig á því að hafa fengið barnabætur

Furðar sig á því að hafa fengið barnabætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ólöf Tara er látin

Ólöf Tara er látin