Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í desember er kveðið á um að komugjöld verði innheimt af ferðamönnum á meðan unnið er að útfærslu auðlindagjalds. Í 11. grein sáttmálans segir meðal annars:
„Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar og ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld.“
Jóhannes Þór segir í samtali við Morgunblaðið að grundvallarskilyrði sé að ferðaþjónustan fái að minnsta kosti tólf mánaða fyrirvara áður en gjaldtaka tekur gildi. Bendir hann á að það skipti máli að svona gjaldtaka nái markmiðum sínum og verði ekki til þess að eyðileggja bæði rekstur fyrirtækja og samkeppnishæfni allrar greinarinnar sem aftur hefði áhrif á skatttekjur ríkisins.
Nánar er rætt við Jóhannes í Morgunblaðinu í dag.