fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Héraðsdómur Reykjaness fór ekki að lögum í forsjármáli – Fær skammir í hattinn frá Landsrétti

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. febrúar 2025 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur lét Héraðsdóm Reykjaness svo sannarlega heyra það í nýlegum dómi sem varðar forsjárdeilur foreldra ungrar stúlku. Ágallar á meðferð héraðsdóms hafi verið slíkir að Landsréttur hefur nú ómerkt dóminn og vísað honum aftur í hérað til löglegrar meðferðar.

Faðir stúlkunnar áfrýjaði málinu til Landsréttar eftir að héraðsdómur dæmdi móður í vil og ákvarðaði föður mjög takmarkaða umgengni í formi myndsímtala.

Faðir taldi að héraðsdómur hefði ekki farið að lögum í málinu. Engin afstaða hafi verið tekin til fullyrðinga föður um að matsgerð dómkvadds matsmanns væri haldin göllum og að forsjárhæfni móður væri skert.

Héraðsdómi hafi borið að leggja mat á öll þau atriði sem talin eru upp í barnalögum um hvað beri að leggja til grundvallar þegar metið er hvað barni er fyrir bestu. Það hafi ekki verið gert.

Eins hafi héraðsdómur ekki lagt nokkuð mat á forsjárhæfni móður, þar með talið hvort stöðugleika gætti í lífi hennar eða hvort hún væri líkleg til að stuðla að umgengi stúlkunnar við föður sinn í samræmi við rétt barns til að þekkja báða foreldra.

Faðir fór fram á að skýrsla yrði tekin af móður fyrir dómi. Þessu hafnaði héraðsdómur og taldi þarfalaust. Faðir benti á að slíkar skýrslur hafi mikla þýðingu í forsjármálum og því óskiljanlegt hvers vegna héraðsdómur synjaði þessari kröfu.

Engin gögn hafi legið fyrir um hagi móður, dvalarstað eða aðstæður stúlkunnar. Héraðsdómur hafi í engu reynt að upplýsa um þessi atriði.

Þannig hafi héraðsdómur dregið taum móður í málinu og draga megi í efa að dómurinn hafi verið óvilhallur.

Loks hafi ekkert verið leitað til stúlkunnar til að kanna vilja hennar í samræmi við þroska og aldur.

Móðir mótmælti kröfum um ómerkingu og taldi héraðsdóm hafa farið í öllu eftir lögum.

Landsréttur rakti að við úrslausn mála um forsjá barns beri dómara að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barns til umgengin, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimilinu hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.

Landsréttur sagði:

„Á það verður fallist með áfrýjanda [föður] að verulega skorti á að í honum áfrýjaða dómi sé tekin rökstudd afstaða til þeirra atriða sem líta bar til.“

Héraðsdómur hafi slegið því á föstu að faðir væri ófær um að fara með forsjá en í engu tekið forsjárhæfni móður til skoðunar, þó að rík ástæða væri til slíks í ljósi þess að barnaverndarmál var opið gagnvart móður og eins hafi leikskóli gert athugsemdir við aðbúnað og líðan stúlkunnar í gegnum árin.

Eins sé lögskylt að leita afstöðu barns og taka réttmætt tillit til hennar þegar mál er rekið fyrir dómstólum sem varða hagsmuni þess. Þetta sé meginregla sem megi aðeins víkja frá í undantekningum.

Landsréttur taldi eins óskiljanlegt hvers vegna móðir slapp við að gefa skýrslu fyrir dómi sérstaklega í ljósi þess að slíkt hefði engan vegin verið þarfalaust þar sem upplýsa þyrfti frekar um aðstæður stúlkunnar.

Heildstætt væru ágallar á meðferð og úrlausn málsins því slíkir að óhjákvæmilegt sé að ómerkja dóminn og gera héraðsdóm að taka það fyrir aftur og að þessu sinni með löglegum hætti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Furðar sig á því að hafa fengið barnabætur

Furðar sig á því að hafa fengið barnabætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ólöf Tara er látin

Ólöf Tara er látin