Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson vann að mestu leyti sigur í máli sem KG ehf. höfðaði gegn honum vegna notkunar á vörumerkinu B5 við rekstur skemmtistaðar í Bankastræti 5 í Reykjavík.
Dómur í þessu máli var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. febrúar.
KG ehf. höfðaði mál gegn Sverri Einari og félagi hans, B Reykjavík ehf, vegna notkunar á heitinu B5 í markaðsefni skemmtistaðar sem Sverrir Einar rak við Bankastræti 5. KG var skráður eigandi vörumerkisins B5 Bar-Bistro en Sverrir Einar keypti rekstur staðarins af öðrum aðila.
KG ehf. krafðist 10 milljóna króna í skaðabætur vegna notkunar á merkinu og ennfremur að stefnu greiddu aðrar rétt tæpar 10 milljónir króna fyrir ólögmæta hagnýtinug á vörumerkinu.
B Reykjavík gagnstefndi KG ehf. og krafðist þess að skráning á merkinu B5 Bar-Bistro yrði felld niður hjá Hugverkastofu vegna notkunarleysis.
Dómari tók ekki undir fjárkröfur KG ehf. á hendur Sverri Einari og B Reykjavík. Bent er á að bótakrafan er ekki sundurliðuð eða gerð nánari grein fyrir því hvernig upphæðin er fundin. Er bótakrafan sögð vanreifuð.
Þá telur dómari kröfu KG ehf. um tæpar 10 millónir, eða 9.868.829 kr. fyrir ólöglega hagnýtingu á vörumerkinu sé ekki raunhæf. Álítur dómari að hæfilegt endurgjald fyrir notkunina á vörumerkinu sé 500 þúsund krónur.
Niðurstaðan er því sú að Sverrir Einar og B Reykjavík eru sýknuð af flestum kröfum KG ehf. en þurfa að greiða 500 þúsund krónur fyrir notkun á vörumerkinu B5. Gagnstefnu þeirra um að merkið B5 Bar-Bistró verði fellt niður hjá Hugverkastofu er hafnað.
Dóminn má lesa hér.