Sjúkralið á Tenerife fann í gær, fimmtudag, lík 42 ára gamals Pólverja í berghylnum og náttúrulauginni Charco del Tancón á Tenerife. Canarian Weekly greinir frá.
Lík mannsins flaut á vatninu er viðbragðsaðilar komu á vettvang. Var kallaður til sjúkrabíll og sjúkraþyrla auk þess sem lögregla kom á vettvang. Var náð í líkið út á vatnið og það fært upp á strönd.
Charco del Tancón þykir vera hættulegur berghylur því þar getur vatnshæð breyst mjög snögglega sem gerir svæðið varasamt. Engu að síður hefur laugin verið lofuð á samfélagsmiðlum sem frábær sundstaður og nýtur vinsælda. Yfirvöld hafa hvað eftir annað varað við því að synt sé í náttúrulaugunni þar sem óútreiknanlegir hafstraumar hafa valdið þar mörgum banaslysum á undanförnum árum.