Alvarlegt vinnuslys varð í Vík í Mýrdal í dag, þar sem karlmaður á fimmtugsaldri lést.
Tilkynning barst um slysið klukkan 13:45 og voru viðbragðsaðilar, lögregla, sjúkraflutningamenn og læknir fljótir á staðinn. Endurlífgunartilraunir voru reyndar á vettvangi en þær báru ekki árangur.
Í færslu Lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu. Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum rannsóknardeildar Lögreglustjórans á Suðurlandi.