Blaðamannafuundur með forsetum Úkraínu og Bandaríkjanna stendur núna yfir í Washington. Tekist er á um friðarsamning til að binda endi á styrjöld Rússa og Úkraínumanna, sem og um viðskiptasamning sem feli í sér tilkall Bandaríkjamanna til náttúruauðlinda í Úkraínu.
Samkvæmt frétt CNN sló í brýnu á milli forsetanna, sem hækkuðu róminn. Sökuðu Trump og varaforsetinn J.D. Vance Zelensky um að auðsýna ekki nægilegt þakklæti fyrir þann stuðning sem Úkraína hefur fengið.
„Þú ert virkilega ekki í góðri stöðu núna,“ sagði Trump við Zelensky og hækkaði róminn.
„Þú ert að gambla með þriðju heimstyrjöldina,“ bætti hann við.
Fundurinn stendur enn yfir þegar þessi frétt er rituð.
Trump vera bjartsýnn á að það tækist að koma á friði í Úkraínu. Hann sagði ennfremur að það væri ekki skynsamlegt að sækja hart að Pútín Rússlandsforseta en neitaði því að hann hefði lagað sig um of að málstað Rússa. „Ég laga mig ekki að Pútín, ég laga mig ekki að neinum,“ sagði Trump.
Zelensky sagði að friðarsamkomulag við Rússa væri gagnslaust án öryggistrygginga. Er friður kæmist á þyrfti að tryggja með öryggissveitum að friðarsamkomulag yrði efnt.
Á léttari nótum spurði blaðamaður Zelensky hvers vegna hann klæddist aldrei jakkafötum. Trump sló þá á létta strengi og sagði að honum líkaði klæðaburður Zelenskys.
Zelensky ítrekaði kröfu um að Rússar greiddu stríðsskaðabætur til Úkraínu enda hefðu Rússar byrjað stríðið með innrás sinni.
Fréttin hefur verið uppfærð
Sjá einnig: Sauð upp úr á milli leiðtoganna – Zelenskyy hefur yfirgefið Hvíta húsið