„Þessi valsaði hér um í nokkur ár og stal fyrir tugi milljóna. Fékk þær frábæru fréttir um daginn að honum var sparkað héðan út, kominn aftur til Litháen,“ skrifar Bjartmar Leósson, betur þekktur sem hjólahvíslarinn.
Þjófurinn sem um ræðir er Arturas Safarian, litháískur maður, sem hefur valdið miklum usla í höfuðborginu undanfarin ár. DV greindi frá því sumarið 2023 að miðbæjarbúar væru orðnir langþreyttir á þjófnaðarbrotum hans en nokkrum mánuðum fyrr hafði hann verið dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára fyrir ítrekuð þjófnaðar- og ofbeldisbrot.
Í febrúar í fyrra greindi DV svo frá því að Arturas hefði verið dæmdur í 17 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir enn fleiri þjófnaðar- og ofbeldisbrot.
Ljóst er að fáir fagna brotthvarfi hans af landi brott meira en áðurnefndur Bjartmar sem hefur marga hildi háð við Arturas um vegna reiðskjóta borgarbúa og hefur ekki tölu á hversu mörgum hjólum hann náði af honum.
„Hjálpaði þessum manni stundum með mat og sígó, hjálpaði honum að flytja líka. Í von um að ná til hans og reyna að snúa honum í aðra átt í lífinu. Það var launað með grjótkasti og svo var mér ógnað með hníf svona í þokkabót. Takk og BLESS Arturas!“ skrifar Bjartmar hjólahvíslari.