Maður fæddur árið 1967, Candido Alberto Ferral Abreu, var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi í Landsrétti fyrir tilraun til manndráps. RÚV greindi frá.
Landsréttur þyngdi þar með dóm héraðsdóms yfir Candido Alberto, úr fjórum árum.
Ákært var vegna atviks sem átti sér stað á bílastæði í Reykjavík 13. mars árið 2021. Candido Alberto stakk þá mann tvisvar með hnífi vinstra megin í brjósthol og var önnur stungan 6 cm löng og töluvert djúp framan á brjóstkassa. Hin stungan var 8 cm löng og töluvert djúp.
Nánast enginn aðdragandi var að árásinni en Candio Alberto sagðist hafa séð til ferða mannsins og elt hann að bílastæði við heimili hans. Hafi honum staðið ógn af manninum. Brotaþolinn lýsti því hvernig hann var nýstíginn út úr bílnum og var að rétta úr sér þegar árásarmaðurinn kom aðvífandi og mælti eitthvað á þessa leið: „Is this him.“ Maðurinn stakk hann síðan fyrirvaralaust. Hann segist síðan hafa reynt að forða sér á hlaupum en ákærði veitt honum í fyrstu eftirför um bílastæðin við fjölbýlishúsin. Ákærði hefði svo hætt því og þá hefði brotaþola tekist að leita skjóls í einu fjölbýlishúsanna hjá ókunnugum.
Er ljóst að mjög óhugnanleg atburðarás átti sér stað á bílastæðinu og árásin er metin sem morðtilraun.
Candido Alberto Ferral Abreu hafði ekki komist í kast við lögin þegar þetta atvik átti sér stað. Var það virt honum til refsilækkunar, sem og að málið dróst nokkuð í rannsókn og var ákæra ekki gefin út fyrr en tveimur árum eftir brotið.
Niðurstaðan er engu að síður fimm ára fangelsi í Landsrétti.