Aðstandendur bókarinnar „Leitin að Geirfinni“ bíða enn eftir því að fá áheyrn hjá fulltrúa dómsmálaráðuneytisins til að afhenda viðkvæm gögn í rannsókn þeirra á Geirfinnsmálinu. Er þar aðallega um að ræða svokallaðan 13. kafla bókarinnar, sem ekki hefur verið gefinn út og er ætlaður opinberum aðilum til aflestrar og eftir atvikum til stuðnings við mögulega upptöku á málinu og rannsókn þess.
DV hefur fengið að líta þennan 13. kafla augum en þar er að finna fullyrðingar sem eru ósannaðar en rökstuddar. Um er að ræða afar viðkvæmar fullyrðingar um nafngreinda aðila og ábendingar um þeir verði rannsakaðir og mál sem þeim tengjast. Meðal annars er nafngreindur meintur banamaður Geirfinns en hann tengist bæði Geirfinni og eiginkonu hans, Guðnýju, fjölskylduböndum. Einnig eru, raunar eins og í bókinni sjálfri, nafngreindar manneskjur sem höfundar fullyrða að viti um örlög Geirfinns. Einnig er því haldið fram að lögregla hafi vísvitandi hylmt yfir með morði og drápi Geirfinns.
Höfundar benda á að þeir hafi ekki rannsóknarheimildir og ekki aðstöðu til að sannreyna með óyggjandi hætti fullyrðingar sínar. Þess vegna þurfi lögregla að rannsaka málið aftur eftir fyrirmælum valdhafa, þ.e. saksóknara eða dómsmálaráðherra.
Útgefandi bókarinnar, Jón Ármann Steinsson, var í viðtali á Bylgjunni í dag. Þar greinir hann frá því að hinum margnefnda 13. kafla hafi verið lekið á netið og gangi manna á milli, t.d. á Facebook og í tölvupósti. Þetta sé afar óheppilegt og rangt gagnvart þeim aðilum sem nafngreindir eru í kaflanum og eigi að njóta réttlátrar málsmeðferðar og hlutlausrar rannsóknar. Biður hann fólk sem berst þetta efni að dreifa því ekki áfram.
Jón Ármann greinir einnig frá því að í bígerð séu leiknir erlendir þættir upp úr bókinni sem hann telur að muni vekja mikla athygli. Ennfremur skorar Jón Ármann á dómsmálaráðuneytinu að veita gögnunum viðtöku og setja í gang nýja rannsókn á Geirfinnsmálinu.
„Þetta er bara ljótt mál sem á að leysa eftir eðlilegum leiðum. Þar ákalla ég kerfið bara. Í guðanna bænum komið þið og takið við þessu og klárið þetta. Hættið þessu hummi og tjai. Humm og tja-deildin í ráðuneytinu á ekki við og ekki heldur hjá saksóknara.“
Viðtalið má heyra hér.