Þannig kannast hvorki geðsvið Landspítala né geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Austurlands við að hafa haft á sinni könnu að sinna eftirfylgni og meðferð Alfreðs þegar hann var útskrifaður úr nauðungarvistun á Landspítalanum í fyrra.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Alfreð hafði lengi glímt við alvarlegan geðrænan vanda og hafði hann í þrígang á innan við ári verið nauðungarvistaður. Þann 6. Júní í fyrrasumar, um tveimur og hálfum mánuði áður en harmleikurinn átti sér stað, var hann úrskurðaður í tólf vikna nauðungarvistun og var samkvæmt því heimild til að vista hann á Landspítalanum til 29. ágúst.
Sjá einnig: Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin
Alfreð var aftur á móti útskrifaður fyrr og í frétt Morgunblaðsins kemur fram að hann hafi verið útskrifaður í hendur geðheilsuteymis Heilbrigðisstofnunar Austurlands en þar á bæ kannast aftur á móti enginn við að hafa haft Alfreð til meðferðar.
Í fréttinni er rætt við Sigurlín Hrund Kjartansdóttur, teymisstjóra geðheilsuteymis HSA, sem segir allt of algengt að teymið fyrir austan fái engar upplýsingar um þá sem eru til dæmis vistaðir í Reykjavík. Stundum sendi viðkomandi stofnun rafrænt útskriftarbréf sem fer á heilsugæslu lögheimilis en Sigurlín segir að stundum sé það bréf bara ekki sent. Þá viti kerfið ekki þegar sjúklingur er innritaður.
„Við sjáum sjúkragögn frá SAk [Sjúkrahúsinu á Akureyri] í okkar kerfi en við erum alveg blind gagnvart geðsviði LSH. Sjúkrakerfið er svo flókið, það eru margar útgáfur í gangi. Það er verið að reyna að samræma þær og opna þær en í dag sé ég ekki hvort skjólstæðingur frá mér hafi farið í bráðainnlögn á BUGL t.d. og verið útskrifaður, fyrr en það kemur læknabréf um það, sem gerist ekki endilega í sömu vikunni,“ segir Sigurlín.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.