fbpx
Fimmtudagur 27.febrúar 2025
Fréttir

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 27. febrúar 2025 18:30

Grímur Atlason Skjáskot: RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, opnar sig um persónulega reynslu sína af skólakerfinu, barnavernd og yfirvöldum, og segir reynslu síns alls ekki gefa sér tilefni til þess að stökkva sérstaklega upp á nef sér þegar Þorgrímur Þráinsson mætir í grunnskóla og hittir börn.

„Mig langar samt að rífa smá kjaft í tilefni dagsins. Það hefur mikið verið talað um „fagmennsku“ sl. daga í tengslum við börn og geðheilbrigði þeirra. Talað um gagnreyndar aðferðir, háskólagráður og fagmennsku í þessu samhengi og hvað hættulegt það er að bjóða upp á ófagmennsku og ógagnreyndar aðferðir. Þetta hefur pirrað mig,“ segir Grímur í færslu sinni á Facebook. 

„Hvers vegna byrjaði ég að drekka sumarið 1982? Var það bara eitthvað svona fikt? Eða var það sjálfsbjargarviðleitni barns sem var beinlínis algjörlega í klessu? Barns sem byrjaði að drekka þar sem það sat eitt í einbýlishúsi um nótt á Spáni og gat ekki hætt að skjálfa.“ 

Grímur segist því næst rifja örfá atriði upp af samskiptum hans við fagmenn um leið og hann  minnir okkur öll á að börn verða fullorðin og þau muna þó þau segi sjaldnast frá. 

„Bara svo það sé sagt þá er hér ekki á ferðinni upptalning fórnarlambs heldur sigurvegara. Ég ber ábyrgð á fjölmörgu en ekki á öðru.

„Sunnudaginn 26. febrúar 1995 þá rankaði ég við mér heima hjá Eddu frænku, teygði mig í viskíflöskuna og – nei, hún var ekki þarna. Hafði gleymt henni hjá pabba um nóttina. Það var nóg. Það gerðist eitthvað. Mig hefur ekki langað í áfengi síðan. Ég byrjaði samt ekki að telja fyrr en mánudaginn 27. febrúar og held því upp á daginn í dag og það eru 30 ár hjá mér. Vel gert Grímur minn,“ segir Grímur. 

„Hvernig var þetta aftur í Ísaksskóla fyrir 50 árum þegar ég var enn að pissa undir á nóttunni vegna vandræða heima fyrir – hvernig brást fagfólkið við? Jú svona = „Hegðun ábótavant“.

Hvernig var með barnaverndina sem gúdderaði konuna í Bólstaðarhlíðinni sem geymdi mig á daginn fyrstu þrjú árin sem ég var í Ísaksskóla? Konuna sem notaði öll tækifæri til að niðurlægja mig þessi ár og var beinlínis vond við mig. Það var síðan skrifað í skýin að hún hitti mig næst þar sem hún í sóknarnefnd Háteigskirkju var mátunarstýra fermingarkirtla: „Grímur minn, gaman að sjá þig.“

Hvað gerðist síðan í Hlíðaskóla þegar ég mætti þangað alveg jafn tættur og lítill og ég hafði verið frá fæðingu enda aðstæður mínar óákjósanlegar börnum? Það voru endalausar uppákomur í þessum skóla. Hér er ein: „Við höfum ekki efni á að ráða sálfræðing fyrir þig enda áttu ekki einu sinni að vera hérna – mamma þín er ekki með lögheimili í hverfinu.“ Og síðan rak viðkomandi mig heim fyrir þær sakir að hafa gripið til varna þegar gerandinn ætlaði enn einu sinni að meiða mig.“

Byrjaði 11 ára að drekka og 13 ára að nota amfetamín

Grímur segist hafa byrjað að taka amfetamín sama dag og það var ekki samkvæmt læknisráði. Hann var 13 ára og notaði efnið af því honum leið hræðilega.

„Alveg eins og þegar ég byrjaði að drekka 11 ára og reykja hass 12 ára. Mér leið hræðilega og það var enga bandamenn að finna. Vitnisburður Hlíðaskóla þessi sex ár var alltaf: „Hegðun ábótavant“.“

Veltir fyrir sér aðkomu barnaverndaryfirvalda

Grímur veltir næst upp aðkomu barnaverndaryfirvalda að málum hans og fjölskylduna. Spyr hann hvers vegna uppeldissystir hans var tekin af heimilinu og send annað þegar hann var 10 ára og hún 13 ára? Hver var munurinn á þessum krökkum? spyr Grímur.

„Hvað gerist svo þegar ég strauk úr sveitinni í júní 1984 eftir að hafa verið sendur í sveit í sjö sumur þar á undan og aðeins tvisvar á sama bæinn? Var þessi strákur spurður: „Hvernig hefurðu það vinur minn?“

Síðan kom lögreglan á heimilið þegar ég var 14 ára og hótaði mömmu, sem var þar í heimsókn frá Grikklandi, að taka mig og systur mína af henni. „Af henni“, þegar staðreyndin var sú að ég hafði ekki búið með henni meira en í nokkra mánuði í senn frá fæðingu og ekkert frá árinu 1978. Ég man allt sem sagt var og líka þegar þeir ruddust inn á klósettið þar sem ég var að pissa og öskruðu á mig: „Ertu að reyna að koma einhverju undan? Ekki sturta niður strákur!“ Ekkert af þessu er að finna í málsgögnum. Bara talað um hve samvinnuþýð móðir mín var. Fagmennskan allt um kring. Hvar var fagfólkið síðan þegar hörmungar haustsins 1985 dundu á? Hvergi.“

Segir Grímur að mál hans hafi verið rædd á fundi í Menntaskólanum í Hamrahlíð þegar skólagöngu hans lauk. „Samfélagið þarf bara að taka við svona mönnunum“, sagði námsráðgjafinn og sálfræðingurinn í MH á fundi með fullt af fólki m.a. formanni nemendafélagsins.

Allt er þetta löngu liðið og fagmennskan hafið innreið sína ekki satt?

Segir börn ekki njóta vafans

Grímur segir börn ekki njóta vafans á Íslandi og það sé miður.

„Það þekki ég bara allt of vel sem barn, sem pabbi, aðstandandi og starfsmaður sem hefur komið að kerfinu sl. 35 ár. Þrátt fyrir helling af frábæru fagfólki í kerfi nútímans og því kerfi sem ég ólst upp í þá erum við alveg ótrúlega mörg sem höfum sögur að segja – líka í dag.

Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta. „Hegðun ábótavant“ var svar kerfisins. Hefur það eitthvað breyst?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks vill ekki CODA Terminal á Vellina – „Orðið „óvissa“ kemur fyrir 47 sinnum í skýrslunni“

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks vill ekki CODA Terminal á Vellina – „Orðið „óvissa“ kemur fyrir 47 sinnum í skýrslunni“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fiskikóngurinn hefur ekkert að fela -„Það skíta allir upp á bak, bara spurning hvernig þú skeinir þér, ég er mjög vel skeindur“

Fiskikóngurinn hefur ekkert að fela -„Það skíta allir upp á bak, bara spurning hvernig þú skeinir þér, ég er mjög vel skeindur“
Fréttir
Í gær

Diljá Mist Einarsdóttir býður sig fram í varaformann Sjálfstæðisflokksins

Diljá Mist Einarsdóttir býður sig fram í varaformann Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Í gær

Hefur áhyggjur af launahækkunum kennara

Hefur áhyggjur af launahækkunum kennara