Forsaga málsins er sú að Jón Gnarr birti færslu á Instagram þar sem hann vakti máls á því að heilsugæslan hans væri hætt að taka við tímabókunum og nú fari þær bara í gegnum Heilsuveru. Í færslunni sagði hann svo kaldhæðinn:
„Fljótlegt og einfalt! Heimilislæknirinn minn er hvergi sjáanlegur en ég get fengið ráðgjöf um getnaðarvarnir eða jafnvel skellt mér til Selfoss í skimun fyrir leghálskrabbameini og þá tekið ljósmæðravaktina í leiðinni. Hittumst svo hress í röðinni á Læknavaktinni í kvöld,“ sagði grínistinn, fyrrverandi forsetaframbjóðandinn og nú þingmaðurinn í færslu sinni.
Einar gerði færslu Jóns að umtalsefni á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði:
„Á ég að gera það? Jón er á þingi. Flokkurinn hans er í ríkisstjórn. Hann sér eins og margir að það er eitthvað að í kerfinu. Jón er í lykilaðstöðu til að laga, láta gott af sér leiða og breyta til hins betra. Hvað gerir Jón? Kvartar á Facebook.“