Faðir á Norðurlandi eystra hefur verið sýknaður af ákæru um ofbeldi gegn börnum sínum. Dómur þessa efnis féll þann 20. desember 2024 en var birtur nýlega. RÚV greindi frá.
Málið varðar tvö sérkennileg atvik. Annars vegar tilkynnti afgreiðslumaður í verslun til barnaverndar um ámælisverða framkomu mannsins í garð sonar síns í versluninni. Starfsmaðurinn, sem er kona, lýsti því fyrir dómi að faðirinn hafi virst í uppnámi og talað harkalega til sonar síns sem sat í kerrunni. Afgreiðslukonan horfði til mannsins sem sagði þá við hana: „You got a fucking problem.“
Atvikið sem maðurinn var síðan ákærður fyrir var hins vegar annað, í þessari sömu verslunarferð. Var hann sakaður um að hafa slegið til drengsins á meðan hann sat í innkaupakerrunni. Byggt var á upptökum úr eftirlitsmyndavél sem var hljóðlaus. Dómari taldi ekki fullsannað af upptökunni að maðurinn hefði slegið drenginn og var hann því sýknaður af þessum ákærulið.
Hins vegar var maðurinn ákærður fyrir að hafa beitt dóttur sína ofbeldi með því að troða harkalega niður í hana snakki. Atvikið kom upp er starfsmaður á leikskóla varð var við sár inn í munni stúlkunnar. Greindi stúlkan frá því að hún hefði fengið sárin við slíkar aðfarir föðurins. Starfsmaðurinn greindi barnavernd frá málinu sem tilkynnti það til lögreglu.
Faðirinn lýsti því að um hefði verið að ræða leik sem fór úr böndunum. Dómara þótti ekki sannað að faðirinn hefði haft ásetning um að meiða dóttur sína og var hann því líka sýknaður af þessum ákærulið og er laus allra mála.
Dóminn má lesa hér.