Bandarísk kona að nafni Eugenea Collins hefur stigið fram og sagt að hún sé hinn horfna Madeleine McCann, sem hvarf barnung í fríi með foreldrum sínum á Portúgal árið 2007.
The Daily Mail greinir frá þessu.
Eugenea þessi er 22 ára gömul frá Arkansas fylki í Bandaríkjunum. Hún heldur því fram að hún hafi DNA sannanir fyrir því að hún sé hin breska Madeleine sem var aðeins þriggja ára þegar hún hvarf af hótelherbergi í Praia da Luz.
Fyrir tveimur árum síðan steig pólsk kona að nafni Jula Wandelt fram og hélt hinu sama fram. Hún hefur farið fram og til baka í málflutningi sínum en eins og DV greindi frá á dögunum var hún handtekin í borginni Leicester og er grunuð um umsáturseinelti gagnvart foreldrunum, Gerry og Kate McCann.
Eugenea þessi segist einmitt hafa farið að telja sig vera Madeleine eftir að hún sá viðtal við Juliu Wandelt í spjallþættinum Dr. Phil. Vandar hún Juliu ekki kveðjurnar.
„Ef það væri ekki vegna þessa þáttar hjá Dr. Phil hefði ég aldrei vitað þetta. Í raun var það heimska hennar sem hjálpaði mér að finna fjölskyldu mína,“ sagði Eugenea.
Eugenea var á svipuðum aldri og Madeleine þegar hún hvarf. Ákvað hún að taka DNA próf sem sýndi að hún væri 68 prósent ensk og norðvestur-evrópsk að uppruna. Segir hún að þetta sanni að hún sé hin týnda Madeleine. Hefur hún tilkynnt þetta bæði til lögreglunnar í Arkansas og lögreglunnar í Bretlandi sem rannsakar málið en á hvorugum staðnum hefur hún verið tekin alvarlega.
Þá segist hún hafa miklar grunsemdir um uppruna sinn. Hún eigi til dæmis engin skilríki.
„Ég hef aldrei séð fæðingarvottorðið mitt. Það eina sem ég hef séð var með nafni annars og mitt skrifað yfir það,“ sagði hún.