Að sögn lögreglu kastaðist í kekki á milli ökumannsins og ungmennanna og er að minnsta kosti einn úr hópnum sagður hafa sparkað í bíl mannsins. Hann brást við með því að fara út úr bílnum og kom þá hópurinn aðvífandi og réðst á hann með höggum og spörkum.
New York Post greinir frá því að um 20 til 30 ungmenni hafi ráðist á manninn sem átti ekki möguleika gegn hópnum. Á myndbandi af árásinni sést að hópurinn hafði sig á brott um það leyti sem maðurinn hætti að hreyfa sig.
Maðurinn var með töluverða áverka á sér eftir barsmíðarnar.
„Annað augað var lokað, hann var með glóðarauga, kjálkinn var stokkbólginn. Þetta leit ekki vel út,“ segir Natasha Espinal, aðstandandi mannsins, í samtali við NBC Los Angeles. „Eitthvað þessu líkt ætti ekki að gerast. Það er sorglegt að sjá svona,“ bætir hún við.
Lögregla segist taka málið alvarlega og vinnur nú að því að bera kennsl á ungmennin sem sáust í myndbandinu.