Í tilkynningu á vef Kennarasambandsins kemur fram að Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag stjórnenda leikskóla (FSL) og Skólastjórafélag Íslands (SÍ) hafi seint í gærkvöldi gengið frá frá sameiginlegum samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga annars vegar, og ríkið hins vegar, í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Samningar FF og FS við ríkið runnu út 31. mars 2024 og samningar FG, FL, FSL, FT og SÍ við sveitarfélögin runnu út 31. maí það ár. Gildandi kjarasamningar aðildarfélaganna framlengjast til 31. mars 2028 með breytingum samkvæmt innanhústillögu ríkissáttasemjara.
Kjarasamningur verður kynntur á næstu dögum og hann borinn undir atkvæði félagsfólks. Nánara fyrirkomulag verður kynnt innan skamms. Niðurstaða atkvæðagreiðslu þarf að liggja fyrir 4. mars næstkomandi.
Í tilkynningunni kemur fram að af þessu leiði að öllum fyrirhuguðum og yfirstandandi verkföllum Kennarasambandsins hefur verið aflýst. Félagsmenn KÍ sem starfa í Borgarholtsskóla, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Tónlistarskóla Akureyrar hafa verið í verkfalli frá 21. febrúar. Félagsmenn KÍ í Leikskóla Snæfellsbæjar hafa verið í verkfalli frá 1. febrúar.
Einnig höfðu verið boðuð ótímabundin verkföll í leikskólum í sveitarfélögunum Kópavogi, frá 3. mars, Hafnarfjarðarkaupstað, frá 17. mars og Fjarðabyggð frá 24. mars og tímabundin verkföll í grunnskólum í sveitarfélögunum Akraneskaupstað, Hveragerðisbæ og Ölfusi, 3. mars, sem einnig er aflýst.