„Mér fannst hann alltaf vera í röngum flokki. En það þarf að vera gott fólk í öllum flokkum. Líka í Sjálfstæðisflokknum. Og þá rann það upp fyrir mér að hann væri akkúrat í réttum flokki.“
Borgarfulltrúi Pírata lét ofangreind orð falla við Ingu Maríu Hlíðar Thorsteinsson í erfidrykkju eiginmanns hennar, Egils Þórs Jónssonar.
Egill Þór var teymisstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hann var 34 ára þegar hann lést 20. desember 2024 á Landspítalanum við Hringbraut. Útför hans fór fram 8. janúar 2025 frá Grafarvogskirkju.
„Mér þótti afar vænt um þessi orð og þau voru áhrifarík, þar sem oft hefur verið hvað lengst á milli þessara tveggja flokka hvað málefni varðar, og átök á milli þessara flokka hafa ætíð verið mikil. Egill var grjótharður Sjálfstæðismaður alla tíð en með óvenjulegan bakgrunn. Hann var ódæmigerður Sjálfstæðismaður, en mikill fengur fyrir flokkinn,“ segir Inga María í grein sinni á Vísi.
Hvernig nær manneskja til fólks með ólíkar skoðanir og lífsviðhorf?
Spyr hún sig hvað fær manneskju til að ná svona vel til fólks með jafn ólíkar skoðanir og lífsviðhorf og hún sjálf? Segir hún þrennt ráða þar helst: einlægur áhugi á fólki, skilningur og samkennd, og vilji til góðra verka.
„Það sem skiptir máli svo að fólki finnist það tilheyra, vera hluti af einhverju, er að því sé sýndur einlægur áhugi á lífi þess og persónu. Dómharka og eigin viðhorf eru lögð til hliðar í samtali en í staðinn er viðmælendum sýnd virðing og áhugi. Þannig upplifir fólk ánægju með sjálft sig eins og það er. Það fær samþykki fyrir því að vera eins og það er og þannig komast gildi viðkomandi raunverulega til skila, þar sem viðkomandi er ekki að reyna að þóknast viðmælanda sínum. Í samtalinu er ekki hlustað og gefin endurgjöf heldur er hlustað af áhuga og sýnd samkennd. Endurgjöf eða ráðleggingar eru gefnar, ef óskað er eftir því. Þegar ágreiningur kemur upp er reynt að finna flöt á máli sem allir geta sætt sig við. Stundum þarf að taka af skarið með erfiðar ákvarðanir er varða lög, réttlæti og/eða almannahag.“
Inga María segist ekki vera ólík Agli að því leyti að fólki finnst hún gjarnan vera í „röngum flokki“. Segist hún deila grunngildum með flokknum og trúa á að stefna hans muni leiða þjóðina til meiri farsældar.
„Ég er ekki hinn dæmigerði Sjálfstæðismaður en í flokknum þurfa líka að vera ódæmigerðir sjálfstæðismenn. Flokkurinn þarf að halda áfram að taka vel á móti öllu því fólki sem hefur trú á stefnunni, sama hvaðan það kemur.“
Inga María bendir á að nú séu tvær afar frambærilegar konur í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir.
„Báðar eru þær virkilega duglegar, ákveðnar og klárar konur. Þær hafa báðar sína kosti og búa báðar yfir miklum leiðtogahæfileikum.“
Inga María segir flokkinn standa á krossgötum. Landsfundarfulltrúar þurfi að velja sér formann sem líklegastur er til að ná að sameina flokkinn aftur, stuðla að virkni innan hans og samvinnu þeirra sem tilheyra grasrótinni. „Bjóða hið ódæmigerða Sjálfstæðisfólk aftur velkomið í starfið, því annars heldur flokkurinn bara áfram að minnka.“
Segir hún Guðrúnu hafa góða reynslu af því að sameina fólk úr ólíkum áttum.
„Hún býr yfir þessum mannkostum sem ég taldi upp hér að ofan sem eru afar verðmætir í samskiptum sem eru jú grunnurinn að góðum árangri. Hún kemur inn í átök sem gerjast hafa í flokknum í áratugi, án þess að tilheyra öðrum hvorum arminum. Ég tel að slíkur aðili sé bjartasta von flokksins til að sameinast á ný.“