„Við óskum kennurum til hamingju með nýjan samning en við höfum verulegar áhyggjur af því hvort innistæða sé fyrir svona miklum launahækkunum. Við veltum því líka fyrir okkur hver á að borga,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali við RÚV.
Samningur sem kennarafélögin og samninganefnd sveitarfélaganna skrifuðu undir í gærkvöld felur í sér 24% launahækkun á fjögurra ára tímabili, þar af 8% hækkun strax.
Sigríður telur þessar hækkanir langt yfir því svigrúmi sem er almennt til launahækkana á vinnumarkaðnum:
„Svigrúmið til launahækkana almennt er svona á bilinu þrjú og hálft til fjögur prósent. Það er það svigrúm sem samræmist verðstöðugleika í landinu. Það er það svigrúm sem jafngildir framleiðniaukningu. Við vitum það að ef við hækkum laun umfram þetta svigrúm fáum við það til baka í hærri verðbólgu og hærri vöxtum.“
Sigríður hefur áhyggjur af áhrifum þessa samnings á verðbólguþróun og óttast að hann geti valdið launaskriði:
„Okkar mat er það að hið opinbera eigi að hætta leiða launaþróun í þessu landi. Við sáum að hið opinbera gerði það í síðustu samningum, lífskjarasamningum, það er bara kominn tími til að skipta um vinnubrögð,“ segir Sigríður Margrét í viðtali við RÚV.