Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sýknað erlenda konu, sem búsett er hér á landi, af ákæru héraðssaksóknara um sérstaklega hættulega líkamsárás, brot í nánu sambandi og brot gegn barnaverndarlögum.
Konan var ákærð vegna þess að hún fékk óþekkta konu til að umskera son sinn á heimili þeirra á Akureyri þriðjudaginn 27. september árið 2022. Syninum blæddi eftir aðgerðina og var farið með hann á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann dvaldist í tvo daga efti að hann hafði gengist undir svæfingu og skurðaðgerð.
Konan sagði fyrir dómi að hún hefði látið umskera barnið í góðri trú. Hún væri kristin og hefði látið umskera eldri bróður drengsins, einnig af trúarlegum ástæðum. Er hún hafði spurst fyrir um slíkar aðgerðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafi henni verið tjáð að þær væri ekki framkvæmdar þar. Hún hafi því leitað til ítalskrar konu sem sagðist vera sérfræðingur í aðgerðum af þessu tagi og auk þess menntaður hjúkrunarfræðingur. Aðgerðin tókst hins vegar ekki betur til en svo að fara þurfti með barnið á sjúkrahús.
Það vó þungt í niðrustöðu dómstólsins að umskurður drengja er ekki óleyfilegur á Íslandi þó að umskurður stúlkna sé það. Auk þess skipti máli að drengurinn var af sérfræðingum ekki talinn hafa verið í lífshættu eftir aðgerðina á heimilinu þó að honum hafi blætt. Ennfremur taldi dómari ekki hægt að fullyrða að móðurinni hefði mátt vera ljóst að konunni sem framkvæmdi aðgerðina væri ekki treystandi fyrir henni.
Konan var því sýknuð. Dóminn má lesa hér.