Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru sem lögð var fram í nafni húsfélags fjölbýlishúss í miðborg Reykjavíkur. Kærð var sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að aðhafast ekkert vegna útlitsbreytinga á gluggum einnar íbúðar í húsinu. Höfðu einstaklingarnir tveir sem lögðu fram kæruna fyrir hönd húsfélagsins hins vegar ekkert umboð til að leggja hana fram.
Í kærunni kom fram að eigandi einnar íbúðar í húsinu hafi endurnýjað alla glugga í sinni íbúð án samráðs við húsfélagið þannig að útlit þeirra varð annað en annarra glugga í húsinu. Kærendurnir sögðu stílbrotið hrópandi og augljóst öllum vegfarendum. Gluggarnir væru öðruvísi, t.d. væru færri rúður í hverjum glugga, sem væru verulegur munur. Vildu kærendur meina að þetta væri lýti á yfirbragði hússins og leiddi til lægra söluverðs fasteigna svo áhrifin væru bæði byggingarfræðilegs og fjárhagslegs eðlis.
Kærendur í málinu voru tveir eigendur íbúða í húsinu en lögðu þeir hana fram í nafni húsfélagsins. Reykjavíkurborg benti á að húsfélagið væri sannarlega skráð í fyrirtækjaskrá en enginn prókúruhafi væri tilgreindur. Umræddir eigendur gætu því ekki lagt kæruna fram með þessum hætti án þess að hafa til þess umboð í samræmi við lög um fjöleignarhús. Lögin kveði einnig á um að kæru sem þessa þurfi að samþykkja af eigendum í húsinu á þar til gerðum húsfundi.
Reykjavíkurborg vildi einnig meina að ákvörðun byggingarfulltrúa um að ekkert skyldi aðhafst vegna glugganna, þar sem ekki væri um að ræða verulega útlitsbreytingu, hafi verið studd efnislegri og málefnalegri skoðun og rökum. Vildi borgin meina eð breytingin skerði ekki hagsmuni nágranna, breyti hvorki né hafi áhrif á götumynd og raski ekki heldur öryggis- og almannahagsmunum. Ekki sé því um verulega breytingu að ræða. Borgin tók ekki undir það að þessi framkvæmd gæti falið í sér lækkun á fasteignaverði eignarinnar og kærendur hafi ekki sýnt fram á tjón.
Í úrskurðinum er sérstaklega tekið fram að kærendunum tveimur hafi verið bent á að afla staðfestingar á því að þeir hefðu umboð til að leggja fram kæru fyrir hönd húsfélagsins. Hafi þeim verið bent á þetta um leið og tekið var á móti kærunni og þeim veittur mánaðarfrestur til að útvega staðfestinguna. Hún hafi hins vegar aldrei borist.
Segir í niðurstöðu nefndarinnar að húsfélagið sé sannarlega skráð með lögformlegum hætto. Jafnframt liggi fyrir að kærendurnir séu eigendur íbúða í umræddu húsi. Það liggi aftur á móti ekki fyrir neinar upplýsingar um að þeir séu stjórnarmenn í húsfélaginu eða að þeir hafi umboð félagsins til að leggja fram kæruna í nafni þess. Með því að ekki sé ljóst að kæran stafi með lögformlegum hætti frá uppgefnum kæranda verði að vísa henni frá.
Hvort þessi niðurstaða þýðir að deilan um nýju gluggana á húsinu sé til lykta leidd skal hins vegar ósagt látið.