Ung bandarísk kona hefur verið handtekin í París, höfuðborg Frakklands, grunuð um að bana nýfæddu barni. Hún er sökuð um að hafa fleygt því út um glugga á hóteli.
The Guardian greinir frá þessu.
Barninu var fleygt út um glugga á annarri hæð hótelsins á mánudag, 24. febrúar. Var því fljótt komið á spítala en þar úrskurðað látið.
Lögreglan rannsakar málið sem barnsmorð, það er morð á einstaklingi undir 15 ára aldri, og hefur móðurina grunaða um verknaðinn.
Móðirin var í ferðalagi um Evrópu í hópi annarra ungmenna. Talið er að hún hafi eignast barnið á hótelinu og fleygt því út um gluggann í kjölfarið. Hún var flutt á spítala til aðhlynningar eftir barnsburð en hefur síðan verið færð í gæsluvarðhald.
Lögregluyfirvöld í París rannsaka hvort að móðirin hafi verið í afneitun um þungun sína. Það er að annað hvort hafi hún ekki vitað eða ekki viljað vita að hún hafi verið barnshafandi.