Unglingspiltur veittist að strætóbílstjóra í gær við Smáralind í Kópavogi. Kastaði hann Nocco dós í hann og hrækti. Var öðrum farþegum mjög brugðið. Framkvæmdastjóri Strætó segir að svona hegðun sé að aukast og fyrirtækið reyni að bregðast við.
Ónefndur farþegi lýsti uppákomunni á samfélagsmiðlum. Var hann að fara inn í strætó við Smáralind og það ætlaði líka hópur af unglingspiltum að gera. Einn af þeim var með opna dós af orkudrykknum Nocco en óheimilt er að neyta matar eða drykkjar í strætisvögnum.
Vagnstjórinn hafi beðið piltinn um að skilja dósina eftir úti en þá hafi hann brugðist mjög illa við. Hann hafi skyrpt á strætóinn og kastað dósinni í bílstjórann. Sagðist farþeginn hafa verið orðlaus við að sjá þessa framkomu.
„Ég er ekki að segja að allir séu svona en ég er að sjá fleira ungt fólk sem skapar vandræði út af engu,“ segir farþeginn.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að svona mál komi alltaf upp annars lagið en þeim fari fjölgandi.
„Þetta kemur í bylgjum en þetta hefur verið að aukast,“ segir hann. „Við höfum heyrt af meiri áhyggjum hjá bílstjórum vegna ofbeldistilburða eða ógnandi tilburða. Án þess að hafa tölfræði þá merkjum við aukningu. Við höfum fundað oftar með bílstjórum en oft áður.“
Jóhannes segir að Strætó reyni að gera allt sem hægt er til að stemma stigu við þessu. Meðal annars hafa samband við skólayfirvöld, en oft eru þeir sem haga sér á þennan hátt á skólaaldri. Einnig hefur Strætó þurft að hafa samband við önnur yfirvöld eins og lögreglu.
Á undanförnum árum hefur Strætó einnig byggt yfir vagnstjóra eins og hægt er, til að verja þá fyrir árásum eins og þeirri sem átti sér stað í gær. En vagnstjórar hafa lent í alvarlegri atlögum en það í gegnum tíðina.
Þá hefur Strætó frætt vagnstjóra um þessa hættu, svo sem með námskeiðum um ógnandi hegðun, til þess að þeir hafi betri grunn til að mæta svona löguðu.
„Vagnstjórar eiga aldrei að koma sér í aðstæður sem þeir ráð ekki við,“ segir Jóhannes aðspurður um hver viðbrögð vagnstjóra eiga vera við svona málum. „Þeir eiga fyrst og fremst að hringja í lögreglu. Það er viðbragð númer eitt, tvö og þrjú. Við hvetjum þá til þess því þeir eru svolítið lokaðir inni í búri og vita aldrei hvað getur gerst. Það er betra að hafa öryggið á oddinum.“