Bú Jóhannes Tryggva Sveinbjörnssonar var tekið til gjaldþrota þann 4. febrúar 2025, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Tilkynning um þetta birtist í Lögbirtingablaðinu í dag.
Jóhannes, sem fæddur er árið 1972, gat sér frægð fyrir framúrskarandi nudd en var síðan ákærður fyrir kynferðisbrot gegn nokkrum kvenkyns viðskiptavinum sínum. Hlaut hann sjö ára dóm fyrir kynferðisbrot gegn fimm konum.
Jóhannes afplánar dóm sinn á Kvíabryggju, sem er opið fangelsi.
Í tilkynningu skiptastjóra í Lögbirtingablaðinu er skorað á alla sem telja sig eiga kröfu í búið að lýsa kröfum í það innan tveggja mánaða. Skiptafundur verður haldinn þann 24. apríl næstkomandi.