Franskt samfélag nötrar nú, enn á ný, vegna réttarhalda yfir meltingarlækningum Joel Le Scouarnec sem sakaður er um að hafa níðst á börnum yfir 25 ára skeið. Alls eru meint fórnarlömb Le Scouarnec 299 talsins og sögð tengjast um 10 frönskum spítölum og sjúkrastofum á árunum 1986 til 2014. Enn fleiri fórnarlömb vildu að mál sín yrðu sótt en þau mál reyndust fyrnd. Fyrningarfrestur slíkra mála er 30 ár í Frakklandi.
Réttarhöldin koma beint í kjölfar umfangsmikilla réttarhalda yfir níðingnum Dominique Pelicot, sem byrlaði eiginkonu sinni og misnotaði hana um margra ára skeið ásamt hópi annarra manna. Þau reyndust Frökkum þungbær og beint í kjölfarið koma síðan réttarhöldin yfir níðingnum Le Scouarnec, sem er stærsta barnaníðingsmálið í sögu landsins.
Læknirinn, sem er 74 ára gamall, hefur þó áður verið dæmdur fyrir sambærilega glæpi. Hann afplánar nú þegar 15 ára dóm, sem hann hlaut fyrir að misnota barn nágranna síns árið 2020. Þá hlaut hann einnig dóm fyrir varðveislu barnaníðsefnis árið 2005 en fékk engu síður að starfa áfram innan um börn í kjölfarið.
Dagbækur Le Scouarnec, sem hann hóf að skrifa árið 1990, eru mikilvæg sönnunargögn í málinu. Í þeim fjallar hann um myrkraverk sín, játar barnagirnd sína og lýsir yfir ást sinni á fórnarlömbunum. Verjendur hans segja þó dagbækurnar ekki sanna neitt, þær lýsir draumórum hans en ekki raunverulegum glæpum.
Frakkar spyrja sig hvernig það megi vera að Le Scouarnec hafi fengið að níðast óáreittur á börnum í öll þessu ár. Þeim spurningum verður líklega svarað í réttarhöldunum sem talið er að muni standa yfir í fjóra mánuði.