Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur hafnað kröfu manns sem krafði ónefnt fyrirtæki um greiðslu viðgerðarkostnaðar á heitum potti sem hann hafði keypt hjá því og krafðist þess sömuleiðis að fá nýjan pott afhentan. Vildi maðurinn meina að potturinn hefði reynst gallaður þegar hann reyndi fyrst að nota hann en nefndin sagði ekki óhugsandi að ástand pottsins mætti rekja til þess að hann hefði verið geymdur utandyra ónotaður í heilt ár.
Í úrskurðinum kemur fram að um rafmagnspott var að ræða en fyrirtækið varð ekki við beiðni nefndarinnar um að leggja fram gögn og veita andsvör í málinu.
Maðurinn sneri sér til nefndarinnar í ágúst 2024 en meðal gagna sem hann lagði fram voru ljósmyndir.
Maðurinn keypti pottinn af fyrirtækinu í apríl 2023 og greiddi um tvær og hálfa milljón króna fyrir. Þegar potturinn var settur upp við sumarbústað mannsins í júní 2024 varð vart við leka í honum auk nokkurra ryð- og frostskemmda. Starfsmaður fyrirtækisins kom og gerði við sjáanlega leka í júlí en fyrir það var maðurinn rukkaður um tæplega 104.000 krónur. Greiddi maðurinn reikninginn með fyrirvara um réttmæti hans sex dögum síðar. Áttu aðilar í nokkrum skriflegum samskiptum í kjölfar viðgerðarinnar, þar kom meðal annars fram að maðurinn teldi fyrirtækið bera ábyrgð á skemmdunum á pottinum en fyrirtækið hafnaði því.
Maðurinn fullyrti í kæru sinni að fyrirtækið hafi tjáð honum að potturinn hefði verið prófaður fyrir leka. Taldi maðurinn að það væri aðeins hægt að gera með því að setja vatn í hann. Eftir kaupin hafi hann verið fluttur að sumarbústaðnum en verið þar fyrir utan óhreyfður, vegna tafa á framkvæmdum við bústaðinn, eins og hann hafi komið frá fyrirtækinu þar til að reynt var að taka hann í notkun ári síðar.
Sagði maðurinn að samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda um hvernig skuli geyma notaðan pott yfir vetrartíma skuli tæma slíkan pott af vatni. Ljóst sé að fyrirtækið hafi ekki fylgt umræddum leiðbeiningum við tæmingu pottsins og hafi potturinn því verið gallaður við afhendingu til hans.
Krafðist maðurinn því að reikningurinn fyrir viðgerðina yrði endurgreiddur og hann fengi nýjan pott en til að vara að hann fengi 50 prósent afslátt af pottinum sem hann keypti.
Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er vitnað í hinn umdeilda reikning en á honum stóð:
„Pottur geymdur úti í vetur án gangsetningar. Frostskemmdir í potti, þar sem vatn hefur komist inn í pottinn í vetur. Frostsprungið fittings við niðurfall. Pottur tæmdur og gert við leka“.
Í kjölfarið sneri maðurinn sér aftur til fyrirtækisins og vildi meina að potturinn væri gallaður. Nefndin segir sönnunarbyrðina hvíla á honum, samkvæmt lögum. Til sönnunar hafi maðurinn lagt fram þrjár ljósmyndir af íhlutum pottsins:
Á einni ljósmyndinni megi greina skrúfaðan bolta sem virðist vera ryðgaður. Önnur gögn hafi maðurinn ekki lagt fram. Óumdeilt sé að potturinn hafi verið geymdur utandyra og ótengdur við sumarbústað mannsins í um eitt ár. Almennt megi gera ráð fyrir að frost- og ryðskemmdir geti orðið á hlutum af þessu tagi ef vatn eigi greiða leið að íhlutum hans og nokkur tími líði þar til það sé uppgötvað. Nefndin segir ekki unnt að slá því föstu að vatn hafi ekki mögulega getað komist að pottinum eða í hann á þessu tímabili sem hann stóð óuppsettur við sumarbústaðinn þrátt fyrir að hann hafi verið geymdur í umbúðum framleiðanda.
Ljósmyndirnar sem maðurinn hafi lagt fram dugi ekki til að ráða með vissu að tjónið hafi verið afleiðing af meðferð fyrirtækisins á rafmagnspottinum. Ósannað væri að potturinn hefði verið gallaður þegar maðurinn fékk hann afhentan.
Kröfum mannsins var því hafnað.