Rétt eftir klukkan 21 í kvöld varð skjálfti í Bárðarbungu, í norðvesturhluta öskjunnar. Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands er fyrsta mat á stærð skjálftans 5,1.
Um 11 eftirskjálftar hafa mælst en þeir voru allir undir 2 að stærð. Samkvæmt tilkynningu er þetta stærsti skjálftinn síðan 14. janúar síðastliðinn þegar nokkuð kröftug hrina átti sér stað að morgni dags.
Alls hafa 12 skjálftar mælst í Bárðarbungu síðasta árið sem eru yfir 4 að stærð. Sá stærsti var 5,4 en sá átti sér stað þann 21. apríl 2024.
Engar tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hristingskort sem sýnir áhrif skjálftans.