Stjórn Kennarasambands Íslands (KÍ) skorar á fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) að greina frá afstöðu sinni til innanhússtillögu ríkissáttasemjara. Þetta kemur fram í tilkynningu stjórnar Kí.
„Það skiptir miklu máli, fyrir alla þá sem deilan snertir, að afstaða fulltrúa sveitarfélaganna sé algerlega ljós.“
Stjórnarmenn í SÍS eru:
KÍ lýsir jafnframt yfir vanþóknun sinni á „þeim ósannindum“ sem birtust í yfirlýsingu SÍS í gær þar sem sagði að framsetning innanhússtillögu ríkissáttasemjara hafi ekki verið með samþykki stjórnar eða samninganefndar.
„Hið rétta er að formaður samninganefndar sveitarfélaga var sammála formanni viðræðunefndar KÍ og ríkissáttasemjara, á fundi sem haldinn var í húsnæði ríkissáttasemjara fimmtudaginn 20. febrúar, um að rétt væri að leggja fyrrnefnda innanhússtillögu fyrir samninganefndir samningsaðila og að svar við henni yrði að berast samdægurs.
Stjórn KÍ lítur rangfærslur af þessum toga alvarlegum augum. Þær rýra traust milli samningsaðila og ber að leiðrétta tafarlaust.“
Magnús Þór Jónasson, formaður KÍ, sagði í gær að höfnun samninganefndar SÍS á innanhússtillögu hefði ekkert haft með peninga að gera heldur pólitík. Þar hafi sellur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar komið í veg fyrir að samningar næðust.
„Við erum komin á þann stað að það eru einhverjar sellur í stjórn sambandsins leiddar af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum farnar að líkamna það að við séum komin í pólitík. Þetta snýst ekkert í okkar huga lengur um peninga heldur pólitík,“ sagði Magnús í samtali við fréttastofu Vísis.