fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Fréttir

Andlát aldraðs Vestmannaeyings dregur dilk á eftir sér – Lögregla skoðaði síma vinar hans án dómsúrskurðar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 22. febrúar 2025 10:30

Frá Vestmannaeyjum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlendur maður sem búið hefur um langt skeið á Íslandi og stundað hér viðskipti hefur undanfarið barist fyrir því að héraðssaksóknari rannsaki vinnubrögð lögreglu í kjölfar andláts vinar hans.

Vinur mannsins, sem var aldraður, lést af náttúrulegum ástæðum á heimili sínu í Vestmannaeyjum haustið 2023. Andlátið var í fyrstu óútskýrt og kallaði á rannsókn lögreglu sem meðal annars haldlagði tölvur og símtæki sem voru í íbúðinni.

Eftir að hafa fjarlægt lík mannsins af vettvangi og haldlagt áðurnefnda hluti, afhenti lögregla leigusalanum íbúðina sem gamli maðurinn hafði búið í, en leigusalinn var Vestmannaeyjarbær, og starfsmenn á hans vegum tæmdu íbúðina.

Erlendi vinur hins látna staðhæfir að verðmæti í eigu gamla mannsins og hans sjálfs hafi horfið við þessa tæmingu og ekki komið fram aftur. Segist hann hafa geymt verðmæti hjá þessum vini sínum sem eru horfin.

Hann komst nýlega að því að sími hans, sem hann hafði lánað gamla manninum, hafi verið á meðal haldlagðra muna og lögregla hafi rannsakað innihald hans án þess að afla sér til þess dómsúrskurðar. Árið 2016 gaf ríkissaksóknari út skýr fyrirmæli til lögregluembætta um að afla dómsúrskurðar áður en haldlögð tæki eru rannsökuð, ef ekki liggur fyrir samþykki haldlagningarþola.

Leigusamningur rofnar ekki við samband

Lögmaður erlenda mannsins, Gunnar Ingi Jóhannsson, segir að lögregla virðist hafa farið á svig við lög er hún afhenti Vestmannaeyjabæ lyklana að heimili mannsins. Leigusamningur ógildist ekki við andlát leigjanda. „Það gerist í rauninni ekki neitt. Dánarbúið tekur alltaf við öllum réttindum og skyldum hins látna. Það eina sem gerist er að erfingjar mega ganga inn í leigusamninginn en annars verða þeir að segja honum upp með hefðbundnum fyrirvara. En þarna má segja að leigusali hafi tekið íbúðina yfir á dánarbeði leigjandans. Það er í rauninni húsbrot. Leigusali getur ekki bara vaðið inn og tæmt íbúð þegar enginn er til að tryggja vettvanginn og verðmæti,“ segir Gunnar í viðtali við DV.

Hann staðfestir jafnframt það sem erlendi maðurinn hefur sagt við DV um síma hans sem hann hafði lánað hinum látna, en um var að ræða annan af tveimur símum í eigu erlenda mannsins. „Hann er búinn að fá það staðfest að það er hann sem á þennan síma en ekki sá látni. Ekki var aflað neinna heimilda til að skoða þennan síma og því ljóst að sú skoðun var óheimil, rétt eins og lögreglu var ekki heimilt að afhenda Vestmannaeyjabæ lyklana að íbúðinni,“ segir Gunnar.

Sama dag og líkið var fjarlægt úr íbúðinni afhenti lögreglan Vestmannaeyjabæ lyklavöld að íbúðinni í stað þess að innsigla íbúðina og bíða þar til krufningu væri lokið, sem var fjórum vikum síðar.

Lögreglu sagt að rannsaka sjálfa sig

Erlendi maðurinn kærði framgöngu lögreglu og Vestmannaeyjabæjar til Héraðssaksóknara en Héraðssaksóknari vísaði kærunni til Lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Manninum þótti ótækt að lögreglan rannsakaði eigin vinnubrögð. Sendi hann því erindi til Ríkissaksóknara og bað um að embættið hlustaðist til um að Héraðssaksóknari tæki málið til rannsóknar. Ríkissaksóknari sendi málið til Héraðssaksóknara sem svaraði erindinu á þann veg að hann telji ekki tilefni til að hefja rannsókn.

„Næsta mál á dagskrá er að kæra þessa ákvörðun og knýja fram rannsókn,“ segir Gunnar Ingi lögmaður við DV.

Þess má geta að meðal þeirra muna sem erlendi maðurinn segir að hafi horfið úr íbúð gamla mannsins eru tvö handofin, persnersk teppi. Fyrir liggja samskipti á milli mannanna sem staðfesta að þessi teppi eru í eigu erlenda mannsins og hinn látni hafði þau í vörslu sinni.

„Ég veit ekki hvers vegna menn vilja ekki rannsaka þessi vinnubrögð. Kannski finnst þeim þetta vera smámál sem skipti ekki máli. En skjólstæðingur minn er ekki sama sinnis, honum finnst þetta vera mikið óréttlæti og hefur bent á ýmis atriði þar sem farið var á svig við lög í þessu máli,“ segir Gunnar Ingi.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“
Fréttir
Í gær

Börnum í Breiðholtsskóla stíað í sundur – „Reyndur skólamaður“ ráðinn til að taka á ástandinu

Börnum í Breiðholtsskóla stíað í sundur – „Reyndur skólamaður“ ráðinn til að taka á ástandinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur þyngdur yfir hælisleitanda sem nauðgaði 13 ára barni

Dómur þyngdur yfir hælisleitanda sem nauðgaði 13 ára barni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Banaslys á Þingvallavegi

Banaslys á Þingvallavegi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ekkert hæft í umdeildu atviki í World Class og spyr hver beri ábyrgð – „Mannorðsmorð“

Segir ekkert hæft í umdeildu atviki í World Class og spyr hver beri ábyrgð – „Mannorðsmorð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var sakaður um barnaníð í skilaboðum til unnustu og nafnlausri færslu á Facebook – „Ég vil að þú vitir hvernig maður þetta er“

Var sakaður um barnaníð í skilaboðum til unnustu og nafnlausri færslu á Facebook – „Ég vil að þú vitir hvernig maður þetta er“