Hjónin Hulda Tölgyes sálfræðingur og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur hafa gagnrýnt barnabókahöfundinn ástæla, Þorgrím Þráinsson, harkalega fyrir umfjöllun hans um kvíða barna og ungmenna. Hulda skrifaði harðskeyttan pistil ásamt eiginmanni sínum á Patreon-síðu þeirra hjóna þar sem þau kölluðu rithöfundinn meðal annars „risaeðlu“ og „forréttindafirrtan karl.“ Þau gáfu einnig sterklega í skyn að Þorgrímur hefði ekkert erindi að tjá sig um þessi mál þar sem hann væri ekki menntaður á þessu sviði.
Þorgrímur talaði gegn sjúkdómsvæðingu vanlíðunar barna og hefur mælt með aukinni útivist barna og snjallsímalausum skólum. Þorgrímur hefur svarað hjónunum en þessi ágreiningur er rakinn hér.
Margir hafa blandað sér í þessa umræðu og segir Hulda að viðbrögðin við orðræðu hennar séu fyrirsjáanleg og í anda ferðaveldisins.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir upplýsingafulltrúi kemur Þorgrími til varnar í pistli á Facebook-síðu sinni og harmar hún að Þorgrímur sé hrópaður niður og honum sagt að þegja vegna þess að hann hafi ekki sérfræðimenntun á sviði uppeldismála:
„Það er sorglegt að maður sem hefur starfað í áratugi með börnum og unglingum megi ekki hefja umræðu um sjúkdómsvæðingu bernsku og unglingsára án þess að vera hrópaður niður og skipað að þegja af því hann hafi ekki sérfræðimenntun á sviði uppeldismála. Ef sérfræðimenntun felur í sér slíka fordóma og alhæfingar sem ganga í berhögg við almenna skynsemi og kurteisi er hún lítils virði.
Fólk sem umgengst börn hlýtur að mega velta því fyrir sér af hverju vanlíðan þeirra stafi og koma með tillögur til úrbóta. Það getur ekki verið svona mikið sprengjusvæði að hvetja til minni snjallsímanotkunar og skjátíma, eða meiri útiveru. Það er heldur ekki verið að segja að börn eigi að harka ein af sér úti í horni ef þau eiga við vandamál að stríða. Það er einfaldlega verið að segja að vandamál og vanlíðan fylgja manneskjunni og við megum ekki kenna börnum að það séu alltaf einkenni sjúkdóma, heldur þurfa þau stundum að fá að reka sig á.
Það er óumdeilt að samfélagið er ekki að halda nægilega vel utan um börn og það eru langir biðlistar í úrræði, hvort sem það eru greiningar eða meðferð. Við þurfum að bæta þar úr. En við þurfum líka að horfa á orsakir þessara biðlista og reyna að bæta samfélagið og veita þeim forgang sem eiga bágast. Sérfræðingar í uppeldi eru mikilvægir en það eru líka hinir sem láta börn sig varða, til dæmis sem foreldrar eða höfundar barnabóka.
Og kona sem kallar karlmann sem tjáir sig um börn ómenntaða risaeðlu, er ekki fórnarlamb kynjamisréttis þótt henni sé svarað í sömu mynt.“