Samstarfssáttmáli nýs meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Sósíalista, Flokks fólksins og Pírata var kynntur í Ráðhúsinu klukkan 15:50 í dag.
Heiða Björg Hilmilsdóttir, oddviti Samfylkingar, verður borgarstjóri, Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, verður forseti borgarstjórnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og Líf Magneudóttir, oddviti VG, skiptast á embættum formanns borgarráðs og formanns umhverfis og skipulagssviðs. Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins, verður formaður skóla og frístundaráðs.
Þetta er það sem nýr meirihluti ætlar að gera:
– Hröð húsnæðisuppbygging og örugg heimili fólks eru lykilmál nýs samstarfs í borginni. Efnt verður til sameiginlegrar vinnu Reykjavíkur og verkalýðsfélaga með það að markmiði að stofna félag um þróun nýrra svæða og fara nýjar leiðir við skipulag, uppbyggingu innviða og fjármögnun þeirra.
– Hafin verður strax skipulagning fjölbreyttrar uppbyggingar á nýju landi fyrir allt að tíu þúsund íbúðir í Úlfarsárdal og víðar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og óhagnaðardrifin félög.
– Markmiðið er að auka ferðatíðni Strætó og bæta þjónustu við farþega, meðal annars með vönduðum biðstöðvum.
– Nýr meirihluti leggur áherslu á að forgangsraða grunnþjónustu, fara betur með tíma og fjármuni borgarinnar og sýna ráðdeild í rekstri.
– Þá verður farið í vinnu gegn fátækt og ójöfnuði m.a. með áherslu á heimili á félagslegum forsendum og að stórauka félagslegt leiguhúsnæði miðað við núverandi áætlanir.
– Skólaþjónusta verður efld með fjölgun sérfræðinga svo sem með talmeinafræðingum og brugðist skjótt við þegar barn í viðkvæmri stöðu þarf stuðning. Þá verður leikskólaplássum fjölgað verulega með opnun nýrra leikskóla og stækkun eldri leikskóla án þess að taka skref í átt að fyrirtækjavæðingu.