Þrír skjálftar urðu í Svartsengi með skömmu millibili í gærkvöldi og um tíma var jafnvel talið að kvikuhlaup væri að fara af stað.
Í færslu hópsins í morgun kemur fram að ekki hafi orðið vart við frekari jarðhræringar eftir skjálftana. Þó sé ljóst að þröskuldurinn sé mjög lár til að koma af stað kvikuhlaupi.
„Skjálftarnir í gærkvöldi urðu á miðri Sundhnúkasprungunni, einmitt á þeim stað þar sem undanfarin kvikuinnskot hafa átt upptök sín. Frá þessum stað hafa þau svo stækkað til suðvesturs og norðausturs,“ segir í færslunni.
Í tilkynningu sem Veðurstofa Íslands sendi frá sér í vikunni kom fram að landris hafi haldið áfram en þó hægt örlítið á sér á síðustu vikum. Þá sýndu líkanreikningar að kvikusöfnun nálgist miðgildi þess rúmmáls sem talið er þurfa til að hleypa af stað kvikuhlaupi og eldgosi.