Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm í máli karlmanns sem sakaði konu um grófar ærumeiðingar. Málið varðaði annars vegar skilaboð sem konan hafði sent unnustu mannsins en hins vegar nafnlausa færslu sem birtist í Facebook-hóp fyrir þolendur ofbeldis. Konan var sýknuð bæði í héraðsdómi sem og í Landsrétti. Þetta sætti maðurinn sig ekki við og áfrýjaði til Hæstaréttar sem dæmdi hluta ummæla konunnar dauð og ómerk, en hafnaði þó bótakröfu mannsins. Málið sýnir erfiða stöðu þeirra sem eru vændir um brot í nafnlausum færslum á netinu.
Málið hófst í raun þann 28. ágúst 2021 þegar unnusta mannsins fékk eftirfarandi skilaboð frá konunni, en þær munu hafa verið kunningjar:
„Hef ætlað í soldinn tíma núna að hringja í þig en var aldrei viss hvort þú værir actually að deita hann eða ekki. Það kemur mér ekkert við að þið séuð saman en mig langar samt að senda á þig til að láta þig vita að þessi maður er nauðgari. Hann hefur nauðgað manneskju sem er náin mér þegar sú manneskja var 8 ára. Ég veit að hann hefur líka sótt í það að vinna í kringum börn og hefur allaveganna verið í 3 barnagæslum en verið rekinn/látinn fara af þeim öllum miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið.
Ég er ekki að senda þetta á þig til að eyðileggja eitthvað fyrir þér eða vera leiðinleg en ég vil að þú vitir hvernig maður þetta er. Ég veit að ef ég væri með manni sem væri með barnagirnd eða nauðgari að þá myndi ég vilja vita af því. Ég vona að þú takir þessu ekki illa og verðir ekki pirruð útí mig fyrir að láta þig vita af þessu […]“
Maðurinn brást ekki við þessum skilaboðum fyrr en nafnlaus færsla birtist í lokuðum hóp á Facebook fyrir þolendur ofbeldis þann 22. janúar 2022. Þar sagði:
„Ég er búin að halda inní mér núna í smá tíma að setja þetta nafn hingað inn en ég eiginlega bara verð að gera það uppá að engin önnur börn lenda í honum. Ég vona svo innilega að enginn annar hafi lent í honum.
Ástæðan fyrir því að ég hef viljað setja nafnið hans hingað inn er því ég veit að hann hefur verið að sækjast um að vinna með börnum. Ég veit að hann unnið á leikskóla, frístund eftir skóla og […]. Hvert skipti sem hann er rekinn/látinn fara af einum staðnum þá sækir hann um á næsta sem er með börnum á.
Að vita til þess að hann sækjist eftir að vinna með börnum svona mörgum árum seinna, og það þá vinna sem felur í sér meðal annars að skeina og skipta á börnum, er eitthvað sem er mjög erfitt að vita af án þess að geta varað aðra við.
Hann var 12 ára þegar hann nauðgaði 8 ára barni. Það var ekki kært þar sem þetta kom upp 10 árum seinna. Barnavernd vill helst ekki skipta sér af þegar hann vinnur í kringum börn því það er engin kæra.“
Maðurinn taldi ljóst að konan hefði skrifað þessa færslu enda líkindi með henni og skilaboðunum sem unnusta hans fékk. Konan þvertók þó fyrir að hafa skrifað færsluna. Þá leitaði maðurinn til dómstóla þar sem hann byggði á því að ummæli konunnar væru röng, ærumeiðandi og að konan hefði með þeim vegið að æru hans og mannorði.
Þó færslan væri nafnlaus væri augljóst að konan hefði skrifað hana. Hún væri meðlimur í hópnum og ætti að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að færslan stafaði af öðrum. Sönnunarbyrðin eigi að hvíla á þeim sem eigi hægar um vik að afla sönnunar. Augljós líkindi væru milli færslunnar og skilaboðanna sem voru send á unnustuna.
Konan tók fram að hún hefði verið í góðri trú enda fengið vitneskju um meint brot frá bróður sínum, en bróðir hennar staðfesti frásögn sína fyrir dómi. Hún neitaði þó að hafa skrifað nafnlausu færsluna og tók fram að það væru rúmlega þúsund manns í þessum hóp og hún ekki eina manneskjan sem bróðir hennar hafði sagt frá meintu broti. Margir vissu því af þessu og margir gætu hafa skrifað færsluna. Eins hefði maðurinn ekki einu sinni sannað hvenær færslan var birt og hvor konan hafi einu sinni verið í hópnum á þeirri stundu.
Hæstiréttur tók fram að allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en verður þó að ábyrgjast þær fyrir dómi. Hvað nafnlausu færsluna varðar þá sé það svo að dómari hafi frjálst sönnunarmat nema fyrirmæli laga bindi hann sérstaklega. Þar sem maðurinn hélt því fram að konan hefði skrifað færsluna bæri hann sönnunarbyrðina fyrir því. Hefði honum tekist að leiða nægar líkur að því þá hefði sönnunarbyrðin svo möglega færst yfir á konuna, sérstaklega ef henni væri í lófa lagið að hrekja sönnunarfærsluna. Hér hefði maðurinn þó ekki sannað hvenær færslan birtist heldur aðeins vísað í líkindi með texta og framsetningu. Það eitt geti ekki sannað að konan skrifaði færsluna. Því væri ekki hægt að leggja sönnunarbyrðina á konuna og hún því sýknuð hvað nafnlausu færsluna varðar.
Aftur á móti sé óumdeilt að hún sendi skilaboðin á unnustuna og þar hafi ekki verið um gildisdóm að ræða heldur fullyrðingu um að hann væri sekur um alvarleg brot gegn barni. Konan var þar að auki ekki að lýsa eigin upplifun eða taka þátt í opinberri umræðu. Þar með hefði hún með skilaboðunum vegið að æru og mannorði mannsins og fullyrðingar í skilaboðunum voru dæmdar dauðar og ómerkar. Hæstiréttur tók þó fram að hér væri um að ræða skilaboð sem voru send á eina manneskju og fóru ekki í frekari dreifingu. Því væri ekki um álíka tjón að ræða og ef meiðyrðin hefðu fallið á opinberum vettvangi. Konan var því sýknuð af bótakröfu en gert að greiða manninum 1,2 milljónir í lögmannskostnað.