Vélin skall harkalega til jarðar þegar hún kom inn til lendingar í slæmu veðri og endaði hún á hvolfi á flugbrautinni. Það þykir ganga kraftaverki næst að allir farþegar hafi lifað slysið af en nokkrir slösuðust þó töluvert.
Talsmaður flugfélagsins segir að þeir sem þiggja bótagreiðsluna fyrirgeri ekki rétti sínum til að sækja frekari bætur ef svo ber undir. Kostnaður flugfélagsins við þetta mun nema tæpum 2,3 milljónum dollara, rúmum 300 milljónum króna.
Alls var 21 farþegi lagður inn á sjúkrahús eftir slysið og í gær var búið að útskrifa alla nema einn. Í frétt CBS News kemur fram að sumir hafi verið með bakáverka, aðrir höfuðáverka og enn aðrir þjáðust af ógleði og uppköstum eftir að hafa andað að sér bensíngufum eftir að vélin brotlenti. Þá er ótalinn sá fjöldi sem glímir við andleg einkenni.
Rannsókn slyssins er í fullum gangi en eins og að framan greinir var veður slæmt á þessum slóðum; skafrenningur og mikill vindur.