Ragnar Erling Hermannsson, baráttumaður fyrir réttindum heimilislausra, varð fyrir óhugnanlegri árás á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni í dag. Greint var frá atvikinu í dagbók lögreglu og þar segir:
„Óskað aðstoðar vegna ágreinings milli tveggja einstaklinga. Annar sagður hafa hellt kveikjarabensíni yfir annan og hótað að kveikja í. Einn handtekinn en sá m.a. grunaður um brot á lögum um útlendinga. Vistaður í fangaklefa vegna málsins.“
Ragnar segist þekkja vel til mannsins sem þarna var að verki og segir að brennivínið sé hans böl. „Maður er svo sem orðinn öllu vanur eftir ýmislegt,“ segir Ragnar í viðtali við DV og hlær við, en segir að vissulega hafi þessi lífsreynsla tekið mjög á.
Það skal rifjað upp að lagt var til Ragnars með hnífi í gistiskýlinu síðastliðið haust.
„Samt ekki, mér dauð-fokking brá,“ bætir hann síðan við. „Hann er búinn að vera niðri á skýli jafnlengi og ég hef verið þar,“ segir hann um árásarmanninn, en hann er ekki með á hreinu þjóðerni mannsins. „Hann hefur verið á götunni líka. Hann drekkur mikið og það er helvítis brennivínið sem er sökudólgur þarna. Hann varð eitthvað reiður af því ég hvæsti aðeins á hann, af því að hann var að trufla mig, ég var bara að hlusta á í headphones í stólnum.“
Ragnar veit síðan ekki til fyrr en það hellist vökvi yfir hann og maðurinn stendur yfir honum með zippo-bensínbrúsa. Sem betur fer náði hann ekki að kveikja eld en Ragnar kom sér strax undan. Hringt var í lögregluna sem kom mjög fljótt á vettvang. „Ég bað um að það yrði hringt á lögregluna, félagi minn gerði það og þeir komu,“ segir Ragnar.
„En ef það á að gera einhverja grein um þetta þá vil ég bara endilega vekja athygli á því að hún vinkona mín Heiða Björg er að verða borgarstjóri og hún og Sanna Magdalena komu og heimsóttu okkur hérna í heilan klukkutíma niðri á kaffistofu. Sanna var grjóthörð með okkur í mótmælunum niðri á skýli. Það er búið að vera algjörlega óboðlegt ástandið á kaffistofunni, sérstaklega undanfarna tvo vetur. Það sem við þurfum er húsnæði og það verður að gera stórátak í því. Þetta tók kipp og ég gef henni Heiðu Björgu mikið kredit fyrir það að það kom kippur í úthlutunum á húsnæði. En betur má ef duga skal. En ég vil lýsa yfir fullum stuðningi við nýjan borgarstjórnarmeirihluta og sérstaklega vinkonu mína hana Heiðu Björgu.“
Hvetur Ragnar nýja borgarstjórnarmeirihlutann eindregið til dáða og brýnir þau til að gera átak í húsnæðismálum heimilislausra.
Svo við snúum okkur aftur að árásinni í dag þá hefur Ragnar, sem er seinþreyttur til vandræða, verið hvattur til að kæra. „Ég athuga það á morgun eða mánudaginn,“ segir hann. „Þetta er bara ástandið sem við búum við, niðri á kaffistofu, heimilislausir, þetta er alveg skelfilegt ástand,“ bætir hann við. „Það verður að koma þessu fólki í hús.“
Aðspurður segist Ragnar vera mjög sleginn eftir árásina. „Alltaf þegar maður lendir í svona, eins og t.d. eftir hnífstunguárásina í fyrra, þá er þetta ofboðslega óþægilegt, þetta er mjög nærgöngult. Það er svo ofboðslega langt gengið. Ég er sleginn núna eins og ég var þá,“ segir hann.