Þetta sagði Hermann Austmar, faðir stúlku í 7. bekk Breiðholtsskóla, í viðtali við Sindra Sindrason í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.
Töluvert hefur verið fjallað um ógnarástand í Breiðholtsskóla vegna hóps drengja af erlendum uppruna sem beitt hafa samnemendur sína grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi. Fá úrræði virðast vera fyrir hendi til að leysa vandann og kveðst Hermann margoft hafa íhugað að flytja úr hverfinu.
Sjá einnig: Ógnarástand í Breiðholtsskóla:„Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“
Í viðtalinu kom fram að Hermann vilji tala um hlutina án þess að vera kallaður rasisti. Hann telur að þeir sem eigi að geta tekið á vandanum þori því ekki vegna uppruna drengjanna og fjölskyldna þeirra.
„Það eru mörg börn sem eiga erlenda foreldra í skólanum, hátt hlutfall, það getur alveg verið að það sé menningartengt en ég held að í þessu tilfelli skipti það bara engu máli,“ sagði hann og bætti við að allt séu þetta börn sem búa á Íslandi.
„Samkvæmt lögum um grunnskóla á að tryggja öllum börnum öryggi, við erum með barnaverndarlög og þau eiga að vernda börn. Það snýst ekki um hvort þau eigi íslenska foreldra eða erlenda foreldra. Þau eru í skóla á íslandi.“
Sjá einnig: „Það er hörmulegt til þess að vita að þetta sé búið að ganga svona í mörg ár“
Hermann sagði að illa hefði gengið að fá þessa foreldra til að vera virka og illa gengið að ná til þeirra.
„Þetta er ekkert leyndarmál, þessi börn eru bara eftirlitslaus í Breiðholti. Það eiginlega bara hræðast þau allir. Við vitum að þegar börn eru að haga sér svona þá er gríðarlegur vandi á bak við,“ sagði Hermann og bætti við að drengirnir hefðu ekki bara verið til vandræða í Bökkunum og í skólanum sjálfum heldur einnig í Seljahverfi þar sem dæmi séu um ógnandi hegðun þeirra í garð eldri krakka.
„Þetta er bara gríðarlega alvarlegt og ein af ástæðunum fyrir því að ég er að tala um þetta er að ég held að það sé stórslys í uppsiglingu, að minnsta kosti í Breiðholti.“
Hermann segist ekki alveg gera sér grein fyrir því hversu stór hópurinn er en hann kvaðst þekkja dæmi um að drengir hafi mætt heim til nemenda í Breiðholtsskóla.
„Þeir mættu með öxi heim til hans. Mamma hans hringdi á lögregluna og barnavernd og allt saman. Og ég veit um annað foreldri sem hringdi úr Seljahverfinu hringdi á lögreglu og barnavernd af því að þeir voru að ógna syni hennar sem er í 10. bekk með hníf eftir einhverja samkomu í Efra-Breiðholti.“
Hermann ítrekaði að Ísland eigi að taka þátt í alþjóðsamfélaginu og koma hælisleitendum og fólki í vanda til aðstoðar.
„Þegar við erum að hleypa fólki til Íslands þá verðum við að skilja samhengi þess hvaðan þau eru að koma. Eins og þetta er núna erum við að búa til gríðarleg vandamál inn í framtíðina með því að aðstoða ekki þessi börn og foreldra þeirra, tryggja að þau verði hluti af samfélaginu.“