Maður sem var með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á árás á sumarbústað í Suðurnesjabæ, sem var heimili sálfræðings nokkurs, hefur krafist bóta frá ríkinu vegna lögregluaðgerða gegn sér. Haustið 2020 lagði sálfræðingurinn fram kæru vegna meintrar líkamsárásar, eignaspjalla og þjófnaðar á heimili hans í sumarbústaðnum. Eiginkona sálfræðingsins lagði einnig fram kæru.
Árásarmaðurinn m.a. var sakaður um að hafa kastað 8 kg steini í bústaðinn og fólst kæran einkum í þeirri ásökun.
Vegna myrkurs sáu hjónin ekki hver veittist að þeim í sumarbústaðnum en sálfræðingurinn nefndi til sögunnar mann á fertugsaldri sem hafði staðið í illdeilum við hann. Sagði sálfræðingurinn að sá sem hann hefði grunaðan væri með sig á heilanum.
Lögmaður hins grunaða segir í kröfubréfi fyrir hönd hans til ríkislögmanns að sálfræðingurinn hafi ekki lagt fram nein gögn um þetta. Í bréfinu segir:
„Fram kemur í lögregluskýrslum að […] fullyrti að umbj. minn væri með sig á heilanum og væri að ofsækja sig og […]. Ekki er þó að sjá af gögnum málsins að kærendur hafi gert nokkurn reka að því að styðja fullyrðingar sínar nokkrum gögnum. Ekki er að sjá af gögnum málsins að nokkrar kærur eða tilkynningar til lögreglu hafi borist vegna meints eltihrellis. Þá hefði kærendum verið í lófa lagið að sýna lögreglu fram á að getgátur þeirra hefðu einhverja stoð í raunveruleikanum með því að sýna einfaldlega fram á meintar hringingar eða skilaboð í síma þeirra, annað hvort þegar lögregla kom á vettvang eða í þau tvö skipti sem kærendur komu í skýrslutöku vegna málsins.“
Málið er rakið í kröfubréfinu og segir að lögregla hafi farið fram á það við héraðsdóm að aflað yrði upplýsinga um símanotkun hins grunaða á umræddu tímabili. Var krafan rekin fyrir dómi án aðkomu hins grunaða sem hafði þar með ekki tækifæri til að benda á að lagaskilyrði skorti til að heimila þessa þvingunaraðgerð. Úrskurður sem kveðinn var upp um þetta var mjög víðtækur og án takmarkana, að sögn lögmannsins. „Samkvæmt úrskurðinum skyldi vera lögreglu allar upplýsingar um alla notkun fyrir tiltekið símanúmer „svo og önnur símanúmer og símtæki“ sem umbj. minn hafði í eigu sinni eða umráðum 23-28. september 2020. Þá skyldu upplýsa um öll SMS skilaboð og talhólf og jafnframt hvernir væri rétthafar allra þeirra númera sem samskiptin vörðuðu. Þá skyldi upplýst um hvaða endurvarpa skilaboð og símtöl fóru sem gat gefið til kynna staðsetningu umbj. mín á hverjum tíma.“
Hinn grunaði var boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu í lok mars árið 2021 og honum tilkynnt að hann væri grunaður um tilraun til líkamsárásar, eignaspjöll og þjófnað í sumabústaðnum áðurnefnda. Ennfremur voru tekin af honum tvö lífsýni.
Svo fór að ekkert kom fram í rannsókninni sem benti til þess að þessi maður hefði verið þarna að verki. Var málið fellt niður.
Maðurinn telur sig eiga skýran rétt til miskabóta enda hafi friðhelgi einkalífs hans verið rofin með þessum aðgerðum lögreglu. Segir ennfremur í kröfubréfinu:
„Verður ekki litið framhjá því að heimild til rannsóknar lögreglu var byggð á afar veikum grundvelli, brotið var á rétti umbj. míns til að fá skipaðan lögmann tilað mótmæla kröfunni fyrir dómi og eftir atvikum kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar, auk þess sem heimildin til rannsóknar er afar víðtæk og án takmarkanna.
Þá felur taka lífsýnis einnig í sér inngrip í friðhelgi einkalífs sem bótaskylt er ágrundvelli framangreindrar bótareglu sakamálalaga. Leggjast bætur vegna þess ofan á bætur vegna skoðunar á símagögnum.“
Maðurinn krefst 1,5 milljóna króna í miskabætur auk lögmannskostnaðar. Hann gæti þó í sáttaskyni fallist á 600 þúsund krónur og lögmannskostnað.
Samkvæmt heimildum DV hefur ríkislögmaður núna viðurkennt bótaskyldu vegna aðgerða lögreglu í málinu. Enn er hins vegar ekki komin niðustaða um hvað bæturnar verða háar.